Lífið

Byrjaði kornungur að búa til vísur

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Ragnar Ingi er formaður Kvæðamannafélagsins Iðunnar sem starfað hefur frá árinu 1929.
Ragnar Ingi er formaður Kvæðamannafélagsins Iðunnar sem starfað hefur frá árinu 1929. Vísir/Vilhelm
„Ég byrjaði kornungur að fást við að gera vísur. En að kveða rímur, ég man nú ekki hvernig ég byrjaði á því,“ segir Ragnar Ingi Aðalsteinsson, bragfræðingur og formaður Kvæðamannafélagsins Iðunnar.

Kvæðamannafélagið Iðunn hefur starfað óslitið frá árinu 1929. „Það eru yfir tvö hundruð félagar og við höldum fund alltaf einu sinni í mánuði, svona skemmtikvöld,“ segir Ragnar Ingi en tilgangur félagsins er að æfa kveðskap og halda lífinu í vísnalögum og rímnakveðskap.

„Það er víðs vegar um landið þar sem er verið að kveða. Það er fullt af eldra fólki sem kann mikið af rímnalögum og kveður eins og gert var í gamla daga,“ segir Ragnar sem sjálfur var farinn að kveða rímur innan við tvítugt og hefur gaman af.

„Það er heilmikið fjör í þessu,“ segir Ragnar og bætir við að meðalaldurinn í félaginu sé fremur hár: „Það er nú mikið af þessu fullorðið fólk en svo er þarna ungt fólk líka. Það er svolítið af krökkum sem koma þarna og stúdera þetta með okkur. Svo er fullt af fólki sem er orðið fjörgamalt og búið að vera þarna í áratugi.“

Skemmtikvöldið hefst klukkan átta í menningarmiðstöðinni Gerðubergi í kvöld, Bára Grímsdóttir mun kveða úr Króka-Refs rímum eftir Hallgrím Pétursson og er öllum frjálst að mæta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×