Hart var barist í keppni í tölti í Meistaradeildinni í hestaíþróttum í gærkvöldi. Hver glæsisýningin rak aðra en Árni Björn Pálsson á mikilli getuhryssu, Skímu frá Kvistum, átti kvöldið og stóð uppi sem sigurvegari.
Hann sagði að keppni lokinni að sigurinn hefði verið óvæntur, en Árni Björn er margfaldur íslandsmeistari í tölti, snjall og fjölhæfur knapi.
„Þetta var frábært. Þetta er ofboðslega efnileg hryssa, en á eftir að safna meiri kröftum og styrk, en hún var orðin aðeins þreytt í lokin. En hún stóð sig frábærlega, að klára þessi úrslit er meira en að segja það því það er svo mikið úthald sem þau þurfa að hafa, þannig að ég er bara í skýjunum með hana,“ sagði Árni Björn að lokinni keppni.
Hulda Gústafsdóttir veitti honum harða samkeppni, tefldi fram hinum föngulega töltara Kiljan frá Holtsmúla, en þau fóru Krísuvíkurleiðina á pall, tóku hástökkið, unnu B-úrslitin og fóru alla leið í annað sætið. Þá var það hinn ungi Ragnar Tómasson, sem sýndi Sleipni frá Árnanesi af krafti, sem hafnaði í þriðja sæti.
Bein útsending var frá Meistaradeildinni á Stöð 2 Sport og má sjá brot af A-úrslitum á meðfylgjandi myndskeiði.

