Innlent

Ólafur fundaði með sendiherra Rússa á Íslandi

Birgir Olgeirsson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson.
Ólafur Ragnar Grímsson. VISIR/ANTON
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, átti fund með sendiherra Rússlands á Íslandi, Anton Vasilev, fyrr í dag um stöðuna í viðskiptum landanna og mikilvægi þess að tryggja framhald farsælla viðskipta sem í áratugi hafi verið báðum þjóðunum til hagsbóta.

Þetta kemur fram á vef embættis forseta Íslands en þar segir að þessi farsælu viðskipti hafi skipt sköpum á örlagatímum í landhelgisbaráttu Íslendinga.

Á vefnum kemur fram að Ólafur hafi minnt á að jafnframt sé virtur réttur ríkja til að taka afstöðu til einstakra deilna og átaka á alþjóðavettvangi með tilliti til allþjóðlaga, aðildar að bandalögum og viðhorfa grannþjóða.

Á fundinum var rætt um ýmsar leiðir sem gætu skref fyrir skref leitt til lausnar í ljósi þess að í báðum löndunum væri ríkur vilji til að varðveit langvarandi og gagnkvæma viðskiptahagsmuni þrátt fyrir tímabundinn ágreining um önnur mál. Segir á vef embættisins að söguleg átök á tímum kalda stríðsins, aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningur við Bandaríkin hefðu ekki komið í veg fyrir að Íslendingar og Rússar kappkostuðu að varðveita í áratugi hin traustu viðskiptatengsl landanna.

Uppfært: 16:45

Að sögn forsetaritara var fundi þeirra Ólafs og Vasilev komið á að frumkvæði forsetans og að höfðu samráði við forsætisráðherra, Sigmund Davíð Gunnlaugsson.


Tengdar fréttir

Rússar setja viðskiptabann á Íslendinga

Rússland hefur ákveðið að setja viðskiptabann á matvæli frá fimm ríkjum til viðbótar við það bann sem þegar hafði verið sett á ríki Evrópusambandsins. Löndin eru Albanía, Svartfjallaland Liechtenstein og Úkraína.

Segir ágreining geta skapað úlfúð

Ósamkomulag innan ríkisstjórnar vegna viðskiptabanns Rússa gæti dreifst yfir á önnur mál segir prófessor við Háskóla Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×