Erlent

Frans páfi segir misskilning að hann sé vinstrisinnaður

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Frans páfi ásamt Barack Obama Bandaríkjaforseta við Hvíta húsið í gær.
Frans páfi ásamt Barack Obama Bandaríkjaforseta við Hvíta húsið í gær. vísir/epa
„Ef ég hef gefið fólki þá hugmynd að ég sé hálfgerður vinstrisinni, þá er það ekki rétt útskýring,“ sagði Frans páfi í gær, stuttu áður en hann hitti Barack Obama Bandaríkjaforseta í Washington.

„En ef þeir vilja að ég fari með trúarjátninguna, þá get ég það,“ bætti hann við.

Obama tók á móti honum á flugvellinum, en þeir héldu síðan að Hvíta húsinu þar sem þeir ávörpuðu báðir mannfjölda, sem þar beið eftir þeim.

Frans páfi tók ekki í mál að fara með glæsibifreið þennan spotta frá flugvellinum til Hvíta hússins, heldur settist hann upp í lítinn Fiat sem flutti hann á leiðarenda.

Í ávarpi sínu fyrir utan Hvíta húsið fagnaði páfi sérstaklega tillögum Obama um aðgerðir til að draga úr loftmengun: „Með því að fallast á hve brýn þessi mál eru, þá virðist mér einnig ljóst að loftslagsbreytingar eru vandamál sem ekki er lengur hægt að láta komandi kynslóðum eftir.“

Hann hvatti enn fremur til umburðar­lyndis og sagðist þakklátur fyrir þær góðu móttökur sem hann hefur fengið í Bandaríkjunum. „Sem innflytjendasonur gleður það mig að vera gestur í þessu landi, sem að stórum hluta er byggt upp af innflytjendafjölskyldum.“

Páfinn verður alls í sex daga í Bandaríkjunum og heimsækir þrjár borgir, nefnilega New York og Philadelphiu auk höfuðborgarinnar Washington.

Það umdeildasta, sem Frans páfi tekur sér fyrir hendur í þessari Bandaríkjaheimsókn, er að taka 18. aldar munkinn Junipero Serra í tölu kaþólskra dýrlinga.

Serra var umdeildur á sínum tíma fyrir að hneppa frumbyggja í þrældóm og beita þá líkamlegum refsingum af mikilli grimmd.

Samtök bandarískra frumbyggja hafa harðlega mótmælt þessu, en Frans páfi segist líta á Serra sem einn af stofnfeðrum Bandaríkjanna.

Spánverjinn Serra hélt vestur til Kaliforníu stuttu fyrir 1770 og stofnaði þar trúboðsstöðvar þar sem mikil áhersla var lögð á að fá indíána til að snúast til kristni. Prestar voru settir yfir samfélög frumbyggja og stjórnuðu harðri hendi.

Með því að taka Serra í dýrlingatölu kýs páfi að líta fram hjá þeirri ljótu sögu nýlenduvæðingar, þjóðarmorðs, misþyrminga og pyntinga sem fylgdu innrás Spánverja til Vestur­heims og síðar stofnun Bandaríkjanna í Norður-Ameríku.

Á hinn bóginn sjá innflytjendur af suðuramerískum uppruna í Bandaríkjunum mikilvæg tengsl við Serra, og til þeirra virðist páfi einkum vera að höfða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×