Að bænum Forsæti í Flóa, í gamla Villingaholtshreppi, reka hjónin Bergþóra Guðbergsdóttir og Ólafur Sigurjónsson galleríið Tré og list. Þar virðist eitt verk vekja sterkari hughrif en önnur, þannig lýsir Ólafur viðbrögðum ljósmóður sem sá það á dögunum.
„Hún fölnaði upp af hrifningu. Og ég bara sá, hún sýndi mér bara gæsahúðina á handleggjunum. Hún var svo gjörsamlega orðlaus yfir þessu listaverki.“
Verkið er eftir konu úr sveitinni, Sigríði Jónu Kristjánsdóttur, eða Siggu á Grund, eins og hún er oftast kölluð, og er skorið úr tré. Sjálfur er Ólafur einnig heillaður.
„Ég fullyrði það alveg óhræddur og án þess að roðna í safninu að, - enda hefur fólk sagt það sem er búið að fara út um allan heim og séð svona listaverk, - það fullyrðir það að þetta sé nánast fullkomnun í þessu fagi. Fólk fullyrðir það að það hafi aldrei séð svona gríðarlega fallegt verk,“ segir Ólafur í Forsæti.
Sigga á Grund vinnur að list sinni á heimili sínu og við fengum hana með okkur í listasafnið til að segja okkur frá verkinu.

Fjallað var um mannlíf í Flóa í þættinum Um land allt á Stöð 2 í kvöld og nánar rætt við Siggu á Grund og Ólaf í Forsæti.