Innlent

60 til 70 milljóna króna kostnaður við að skipta út gúmmíkurli í Árborg

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Ákveði Sveitarfélagið Árborg að skipta út svörtu gúmmíkurli á gervigrasvöllum sveitarfélagsins gæti það kostað á milli sextíu og sjötíu milljónir króna. Óttast er að gúmmíið geti verið krabbameinsvaldur þó þó það sé ekki sannað.

Í sveitarfélaginu eru fimm gervigrasvellir, allir með gúmmíkorn úr möluðum bíldekkjum. Skiptar skoðanir eru um gúmmíið, sumir segja að það sé heilsuspillandi og geti jafnvel valdið krabbameini þó það sé alls ekki sannað en aðrir telja gúmmíið gott fyrir vellina og hafi engin heilsuspillandi áhrif. Menningar- og frístundafulltrúi Árborgar hefur kynnt sér málið og lesið nokkrar skýrslur um gúmmíið.

„Þeir vilja meina að þetta svarta gúmmí sé ekki eins hættulegt og talað er um um og verða að treysta sínum framleiðanda. Það eru líka önnur efni komin, t.d. þetta grá afgangsgúmmí sem er ekki unnið úr dekkjakurli og svo þetta græna fína. Það sem hefur verið að stoppa sveitarfélögin sem eru með þessa velli er verðið því að græna er miklu, miklu dýrara og grá er svona þarna helmingi dýrara heldur en það svarta. Það hefur örugglega haft mikil áhrif á síðustu árum hvað menn hafa verið að kaupa í þetta,“ segir Bragi Bjarnason, menningar- og frístundafulltrúi í Árborg.

Kostnaður við að skipta út svarta gúmmíinu stendur í bæjarfulltrúum og formanni íþrótta- og menningarnefndar.

„Það gæti kostað sextíu, sjötíu milljónir króna að skipta á þeim öllum í einu en það kemur að þessum skiptum og þá munum við að sjálfsögðu gæta 150% öryggis gagnvart öryggi barna,“ segir Kjartan Björnsson, bæjarfulltrúi og formaður íþrótta- og menningarnefndar. Kjartan segir að efninu verði skipt út á völlunum í skrefum á næstu árum.

„Við viljum bara vera 150% örugg um það að það séu engin krabbameinsvaldandi efni í þessu kurli,“ bætir Kjartan við.

En hafa foreldrar þeirra sem æfa á völlunum verið að kvarta undan dekkjakurlinu?

„Fólk er eðlilega mis frótt um þetta og hefur á áhyggjur þegar barnið kemur svart heim með svartan bolta og svart andlit, því eðlilega litar svarta gúmmíið þegar það hitnar. Það lítur ekkert vel út, þannig að fólk hefur auðvitað áhyggjur af þessu,“ segir Bragi.​


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×