Lífið

Þeir gera oft ráð fyrir því að ég sé sminkan

Guðrún Ansnes skrifar
Magga Valla hefur unnið að fjölda stórra verkefna, til dæmis fyrir ameríska tölvuleikjarisann Halo. Hún lætur karlrembugrínið ekki fara í taugarnar á sér en það sé vissulega til staðar.
Magga Valla hefur unnið að fjölda stórra verkefna, til dæmis fyrir ameríska tölvuleikjarisann Halo. Hún lætur karlrembugrínið ekki fara í taugarnar á sér en það sé vissulega til staðar. Vísir/GVA
„Oft er gert ráð fyrir að ég sé sminkan eða búningahönnuðurinn þegar ég mæti í tökur, þar sem fólk býst yfirleitt ekki við að stelpur séu í tökuhópnum,“ segir Margrét Vala Guðmundsdóttir, eða Magga Vala eins og hún er kölluð, ein fárra kvikmyndatökukvenna á Íslandi í dag, en iðulega er bent á hve karllægur kvikmyndabransinn er.

Hún hlaut nýverið inngöngu í Den Norske Filmskolen, sem undanfarið hefur verið að vinna sig upp og er talinn líklegur til að taka við keflinu af Den Danske Filmskole, sem þykir einn sá besti.

„Ég held við séum þrjár á landinu sem sinnum starfi kvikmyndatökumanna. Ég er orðin mjög vön að vinna bara með strákunum og finnst ekkert að því. Auðvitað er alltaf eitthvað grín í gangi þar sem útgangspunkturinn er að ég sé kona, en ég hef ekki verið að láta það fara í taugarnar á mér,“ útskýrir Magga Vala og bendir á að einhverra hluta vegna haldi fólk að konur höndli þetta starf ekki á sama hátt og karlar, þar sem það krefst töluvers líkamlegs erfiðis, en hún blæs á slíka sleggjudóma.

„Við þurfum að láta stelpurnar heyra að þær eigi fullt erindi inn í þennan bransa, en ekki smjatta sífellt á að þær geti það ekki, og ég held að við séum aðeins að komast áfram í því.“

Hefur Magga Vala komið sér upp aðdáunarverðri ferilskrá, en hún vann meðal annars að hinni margverðlaunuðu kvikmynd Gríms Hákonarsonar, Hrútum, og kom sömuleiðis að þáttaröðinni Sense 8 sem Matrix-systkinin Andy og Lana Wachowski framleiða.

„Ég var að ljúka tökum á þriðju þáttaröð Réttar. Þar vorum við tvær stelpurnar í kamerudeildinni, og það þótti frekar fyndið,“ bendir Magga Vala á og undirstrikar þannig óhjákvæmilega skort kvenna.

Segist Magga Vala hafa kynnst kvikmyndatöku í lýðháskóla nokkrum þegar hún var yngri og hafa þá einsett sér að sérhæfa sig í faginu.

„Ég sé Hollywood ekki fyrir mér í dýrðarljóma eða sem markmið, ég brenn mest fyrir að fá að vinna fjölbreytileg og ólík verkefni, þar sem ég get ferðast og fengið að prófa og upplifa,“ svarar hún til, þegar hún er innt eftir hver draumur kvikmyndatökukonu sé.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×