Innlent

„Það var virkilega vont að horfa á þetta“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Daníel Rafn er ákærður fyrir að hafa ráðist á Stefán Loga í Ystaseli vorið 2013.
Daníel Rafn er ákærður fyrir að hafa ráðist á Stefán Loga í Ystaseli vorið 2013. Vísir
Ýmsir voru kallaðir til í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag til að gefa skýrslu í máli ákæruvaldsins gegn Daníel Rafni Guðmundssyni. Hann er ákærður fyrir að hafa ráðist á Stefán Loga Sívarsson í Ystaseli þann 17. maí 2013. 


Á meðal þeirra sem gáfu skýrslu voru þeir Stefán Blackburn og Sævar Hilmarsson sem skutluðu Stefáni Loga í Breiðholtið daginn sem árásin átti sér stað.

Stefán Blackburn og Sævar fóru eftir að hafa keyrt Stefán Loga og spurði dómari hvers vegna þeir hafi farið.



Af því að Stefán bað mig um að fara. Hann ætlaði bara að tala við Daníel, sagði að hann væri vinur sinn, sagði Stefán. 



Þá var hann spurður hvað hann hefði heyrt um árásina í Ystaseli. Sagðist hann hafa heyrt að ráðist hafi verið á Stefán og var spurður frá hverjum hann hefði þá vitneskju.

Frá vitnum, svaraði Stefán. Dómari spurði hann þá frá hvaða vitnum, hvort hann gæti gefið einhver nöfn. Sagðist Stefán þá bara hafa heyrt af árásinni frá Stefáni Loga sjálfum.



Sjá einnig: Óttaðist að Stefán Logi myndi drepa sig

Áttu Daníel Rafn og Stefán Blackburn að slást?


Stefán sagði að þegar hann hafi komið aftur í Ystasel hafi sjúkrabíll verið kominn á vettvang og Stefán Logi á leiðinni á sjúkrahús. 



Verjandi Daníels Rafns spurði Stefán svo hvort að hann og Daníel hafi mögulega átt að slást og þrímenningarnir því farið í Ystasel.



Ég veit það ekki. Danni var bara mjög æstur og öskraði í símann.

Þegar hann var spurður hvers vegna Daníel hafi verið svona æstur svaraði Stefán:



Af því að hann hélt að ég hefði nauðgað konunni sinni.

Maður í gulum ermalausum bol gekk sérstaklega hart fram

Þá voru tveir nágrannar Daníels, hjón, kölluð til sem vitni. Konan var að vinna í garðinum þegar hún sá slagsmálin brjótast út. 



Einn lá og annar lamdi. Það var virkilega vont að horfa á þetta. Ég hringdi á lögregluna, ég vildi ekki hafa það á samviskunni að maður yrði drepinn þarna fyrir framan mig, en þá var búið að hringja á lögregluna út af þessu.



Konan kvaðst fyrir dómi ekki muna eftir klæðaburði mannanna sem voru að slást eða hver var að berja hvern. 



Maður konunnar mundi hins vegar að maður í gulum ermalausum bol hafi gengið sérstaklega hart fram. Spurður hvort hann myndi þekkja þann mann aftur í sjón, játti hann því og gaf til kynna með bendingu að um Daníel hafi verið að ræða. 

Sjá einnig: Skil ekki af hverju hann er ekki ákærður fyrir tilraun til manndráps

Vildi ekki koma nálægt málinu út af Stefáni Loga


Þá bar vitni maður sem þekkt hefur Daníel Rafn frá því þeir voru litlir. Var hann gestkomandi í Ystaselinu. Sagði hann að Stefán Logi hafi lamið Daníel í hausinn með kylfu. 



Saksóknari spurði hann svo hverjir hafi lent í átökum og hvort hann gæti lýst þeim. 



Stefán Logi og Daníel eru að slást og þetta endar úti á götu. Þeir eru þarna handalögmálum. Þeir voru að kýla hvorn annan, voru með öskur og læti.

Maðurinn hafi svo ákveðið að fara af vettvangi þar sem hann vildi ekki koma nálægt málinu vegna þess að það tengdist Stefáni Loga.

Læknir sem skoðaði Stefán Loga þegar hann kom á bráðamóttöku eftir árásina gaf einnig skýrslu. Sagði hann að Stefán Logi hefði augljóslega orðið fyrir alvarlegri líkamsárás. Hann hafi verið með mikla áverka í andliti og merki um beinbrot.



Þá var læknirinn spurður hvort að hann teldi áverkana benda til þess að vopnum hafi verið beitt. Hann sagðist ekkert geta fullyrt um það en þó væri það ekki ólíklegt miðað við áverkana sem hann hafði.


Tengdar fréttir

Taldi manninn látinn

Íbúi í Ystaseli í Breiðholti sem kom að manninum sem þar var misþyrmt hrottalega í gær segist í fyrstu hafa talið að hann væri látinn.

Ekki sérstakur viðbúnaður hjá lögreglu

„Við vitum af þessum orðrómi og öðru slíku en það er enginn sérstakur viðbúnaður,“ segir Friðrik Smári Björgvinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, spurður hvort lögreglan væri með sérstakan viðbúnað vegna meintra hótana og vopnasöfnunar aðila sem tengjast líkamsárásinni í Ystaseli.

Segist saklaus af árás á Stefán Loga

Daníel Rafn Guðmundsson lýsti yfir sakleysi sínu í morgun við þingfestingu í máli ríkissaksóknara á hendur honum fyrir stórfellda líkamsárás á Stefán Loga Sívarsson í Breiðholti í maí í fyrra.

Undirheimar nötra eftir Ystaselsárásina

Yfirlögregluþjónn segir almenning ekki þurfa að hafa áhyggjur af mögulegum eftirmálum líkamsárásar í Ystaseli. Dæmdir ofbeldismenn sem málinu tengjast ganga lausir. Fullyrt er að vinir árásarþolans hafi vopnbúist og hyggi á hefndir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×