Innlent

Reikningarnir til Ölgerðarinnar komu frá Vert

Bjarki Ármannsson skrifar
Reikningarnir, sem Ölgerðin segir tilhæfislausa, komu frá Vert markaðsstofu.
Reikningarnir, sem Ölgerðin segir tilhæfislausa, komu frá Vert markaðsstofu. Vísir/Getty
Eigendur Vert markaðsstofu segjast miður sín vegna meintra fjársvika starfsmanns Ölgerðarinnar sem urðu til þess að starfsmanninum var sagt upp störfum í dag. Vísir greindi frá því fyrr í kvöld að Ölgerðin hefði kært starfsmanninn, sem var einn vörumerkjastjóra fyrirtækisins, ásamt starfsmanni auglýsingastofu fyrir að gefa út tilhæfislausa reikninga á Ölgerðina.

Í tilkynningu sem eigendur Vert sendu frá sér eftir að fréttir birtust um málið kemur fram að reikningarnir komu frá Vert. Þeir segja að verklag við meðhöndlun reikninganna hafi verið „ámælisvert” en að það hafi aldrei verið ásetningurinn að valda Ölgerðinni fjártjóni. Jafnframt segja þeir að bókhald Verts hafi verið opnað til að upplýsa málið.

Tilkynning Verts í heild sinni er birt hér að neðan.

Einum af vörumerkjastjórum Ölgerðarinnar var í dag vikið frá störfum út af reikningum sem hann óskaði eftir og komu frá Vert. Við erum gersamlega miður okkar vegna þessa máls. Um er ræða reikninga sem mynduðu inneign af hálfu Ölgerðarinnar í þjónustu hjá Vert en fyrirtækið hefur um árabil verið okkar stærsti viðskiptavinur. 

Viðkomandi vörumerkjastjóri hugðist nota þessa reikninga til að innheimta markaðsstuðning frá erlendum birgjum. Aldrei var ásetningur af okkar hálfu að valda Ölgerðinni fjártjóni. Samanlögð upphæðin sem um ræðir var brot af heildarviðskiptum okkar við Ölgerðina. Verklag við meðhöndlun þessara reikninga var ámælisvert. Við höfum beðið Ölgerðina velvirðingar vegna þessa. Við höfum jafnframt opnað bókhald okkar upp á gátt til að hægt sé að upplýsa málið.

Sú skoðun mun staðfesta að aldrei var um neinn ásetning að ræða að taka þátt í ólögmætu athæfi viðkomandi starfsmanns. Þetta leiðinlega mál skrifast á gáleysi í samskiptum okkar við hann. Við vonumst til að rannsóknin sem farin er af stað gangi greiðlega svo komast megi sem fyrst til botns í þessu máli.

Fyrir hönd Vert markaðsstofu,

Hörður Harðarson, eigandi

Stefán Gunnarsson, eigandi og framkvæmdastjóri.





Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×