Körfubolti

Clippers knúði fram oddaleik | Chicaco slátraði Milwaukee

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leiknum í San Antonio í nótt.
Úr leiknum í San Antonio í nótt. Vísir/AP
LA Clippers sýndi úr hverju liðið er gert með því að hafa betur gegn meisturum San Antonio Spurs á útivelli í nótt og þvinga þar með fram oddaleik í rimmu liðanna í 8-liða úrslitum austurdeildarinnar í NBA-deildinni í nótt.

Clippers var búið að mála sig út í horn eftir slæmt tap á heimavelli í leiknum á undan en náði að gera nóg í nótt til að hafa að lokum betur á sterkum útivelli meistaranna í San Antonio, 102-96.

San Antonio kom þó með áhlaup undir lok leiksins en Clippers náði að standa það af sér. Marco Belinelli setti niður tvo þrista á síðustu 80 sekúndum leiksins og minnkaði muninn í tvö stig. En leikmenn Clippers stóðust prófið og kláruðu leikinn af vítalínunni.





Oddaleikurinn fer fram í Los Angeles á morgun en þetta er eina rimman í fyrstu umferð úrslitakeppninnar sem ræðst í sjö leikjum.

Blake Griffin var með 26 stig og tólf fráköst fyrir Clippers og Chris Paul nítján stig og fimmtán stoðsendingar. Það kom einnig risaframlag af bekknum en varamenn Clippers skoruðu 48 stig í leiknum.

Belinelli skoraði 23 stig fyrir Spurs og nýtti sjö af ellefu þriggja stiga skotum sínum. Tim Duncan og Kawhi Leonard voru báðir með einungis tólf stig.





Chicago er komið áfram eftir risasigur á Milwaukee á útivelli, 120-66, og þar með rimmuna 4-2. Chicago var fjórum stigum frá því að vinna stærsta sigur liðs í úrslitakeppni frá upphafi en það stendur enn í 57 stigum eftir að Minnesota vann St. Louis, 133-75, árið 1956.

Eins og gefur að skilja var engin spenna í leiknum en Chicago var komið með 34-16 forystu eftir fyrsta leikhluta og bætti bara við hana. Milwaukee skoraði aldrei meira en 20 stig í leikhluta og Chicago aldrei minna en 25.

Allir leikmenn Chicago komust á blað í leiknum en stigahæstur var Mike Dunleavy með 20 stig. Stigahæstur hjá Milwaukee var Zaza Pachulia með átta stig en þar á bæ komust reyndar allir leikmenn einnig á blað í stigaskorun.

Úrslit næturinnar:

Milwaukee - Chicago 66-120

San Antonio - LA Clippers 96-102





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×