Talið er að fimm til tíu hópar séu virkir á sviði skipulagðrar brotastarfsemi á höfuðborgarsvæðinu, auk þess sem vísbendingar séu um aukin umsvif þeirra hópa á landsbyggðinni. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um mat á skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi sem birt var fyrir helgi.
Í skýrslunni er meðal annars fjallað um skipulagða glæpastarfsemi sem tengist vændi, mansali og fíkniefnasölu og –framleiðslu. Þar segir að öll lögregluumdæmi landsins telji takmarkaða möguleika á frumkvæðisvinnu vegna niðurskurðar á fjárveitingum hefta upplýsingaöflun um starfsemi skipulagðra brotahópa. Almennt sé það mat lögreglunnar á Íslandi að hún sé ekki fær um að halda uppi ásættanlegri frumkvæðislöggæslu.
„Íslensku lögreglunni hefur verið sniðinn þröngur stakkur síðustu ár,“ segir í skýrslunni. „Verði svo áfram er sú áhætta fyrir hendi að umfang skipulagðrar brotastarfsemi aukist án viðspyrnu samfélagsins.“
Sérstaklega er vakin athygli á bágri stöðu lögregluumdæma á landsbyggðinni. Í skýrslunni segir að lögregla á landsbyggðinni telji sig almennt ekki færa um að halda uppi „ásættanlegu öryggisstigi“ vegna fjárskorts.
„Við mat á stöðu lögreglunnar á landsbyggðinni, einkum með tilliti til frumkvæðislöggæslu, ber að hafa í huga að verkefnum þar fjölgar í takt við aukinn straum ferðamanna,“ segir í skýrslunni. „Honum fylgir til dæmis aukinn fjöldi slysa auk þess sem iðulega fer fram tímafrek og krefjandi leit að týndu fólki. Slíkt kallar á mikla vinnu af hálfu lögreglunnar. Nefna má til samanburðar að nú munu 24 landverðir starfa í Vatnajökulsþjóðgarði en lögreglumenn á Suðurlandi eru alls 34, á svæði sem nær frá Sandskeiði við Bolöldu austur fyrir Höfn í Hornafirði.“
Fimm til tíu skipulagðir glæpahópar starfi á höfuðborgarsvæðinu
Bjarki Ármannsson skrifar
