Brúin yfir Eldvatn skammt frá Ytri-Ásum stendur enn en Skaftá hefur grafið mikið undan undirstöðum hennar um helgina og landið sigið vegna hlaupsins í ánni. Brúin hefur nú verið lokuð síðan á laugardag og er ekki útlit fyrir að hún verði opnuð í bráð.
Guðmundur Valur Guðmundsson, brúarverkfræðingur hjá Vegagerðinni, segir erfitt að meta hvað verður um brúna.
„Við erum að greina það núna hvernig staðan er og við þurfum að bíða eftir því að vatnið sjatni betur áður en við sjáum hvað þarf að gera. Það eru mjög veik jarðlög þarna sem búið er að grafa undan en við sjáum ekkert hvað þarf að gera fyrr en vatnið er búið að lækka meira,“ segir Guðmundur.
Mun rigna fram á morgun
Nær stanslaust hefur rignt á suðausturlandi síðan í gærmorgun og því er enn mikið vatn í Skaftá. Gísli Halldór Magnússon, bóndi á Ytri-Ásum, segir að vatnsmagnið í ánni nú sé eins og í litlu hlaupi.
Gísli segir það ekki góða stöðu fyrir sveitarfélagið ef að brúin fari þar sem um mikilvæga samgönguæð sé að ræða fyrir sveitina. Brúin stytti meðal annars leiðina niður á þjóðveg en ef hennar nýtur ekki við þarf að fara um Hrífunesheiði sem getur verið erfið yfirferðar á veturna.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni mun áfram rigna á suðausturlandi í dag og fram á nótt. Aðeins mun draga úr rigningunni í dag en svo gæti hugsanlega bætt aftur í hana í nótt.
Enn hætta á að flæði yfir hringveginn
Enn er fylgst með því á einum stað á þjóðvegi 1 hvort að vatn muni flæða yfir veginn að sögn Víðis Reynissonar, lögreglufulltrúa á Suðurlandi. Um er að ræða stað sem er austarlega í Eldhrauni.
Víðir segir að nú sé að koma betur í ljós hversu mikið tjón hafi orðið í hlaupinu.
„Við munum væntanlega setjast niður í dag með aðilum eins og Bjargráðasjóði og Landgræðslunni til að koma og líta á það tjón sem orðið hefur hér.“