Tónlist

Sex íslensk nöfn á Eurosonic

Gunnar Leó Gunnarsson skrifar
Hljómsveitin Fufanu sló í gegn á Eurosonic í fyrra.
Hljómsveitin Fufanu sló í gegn á Eurosonic í fyrra. Mynd/FlorianTrykowski
Sex íslenskar hljómsveitir og listamenn koma fram á Eurosonic-tónlistarhátíðinni sem fram fer í Hollandi í vikunni. Íslensku sveitirnar sem fram koma á hátíðinni í ár eru rokkhljómsveitirnar Muck, Pink Street Boys, Kontinuum og þá koma þeir Axel Flóvent og Svavar Knútur einnig fram. Hin hálfíslenska hljómsveit When Airy Met Fairy með Þórunni Egilsdóttur í broddi fylkingar kemur einnig fram. Þórunn er íslensk en búsett í Lúxemborg og gerði það gott í The Voice í Þýskalandi.

Eurosonic er ekki einungis tónlistarhátíð heldur einnig tónlistarráðstefna, þar sem fulltrúar allra stærstu popp- og raftónlistarhátíða í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar, ásamt ríkisútvarpsstöðvum Evrópu og Norðurlandanna mætast. Hún er jafnframt hugsuð fyrir bransafólk og hafa íslenskir listamenn vakið mikla lukku á hátíðinni undanfarin ár.

Hljómsveitin Árstíðir, sem hefur verið iðin við tónleikahald erlendis, gerði það gott á hátíðinni í fyrra.Mynd/FlorianTrykowski
„Það hafa margar íslenskar hljómsveitir gert góða ferð á Eurosonic og má þar nefna FM Belfast, sem var þarna árið 2009 og sló í gegn. Í framhaldi af því hefur hún hefur verið með mikla og góða útgerð á festivölum í Evrópu,“ segir Sigtryggur Baldursson, trommuleikari og framkvæmdastjóri Útón, spurður út í hvað slík hátíð geti haft í för með sér fyrir hljómsveitir og listamenn. 

„Það er talið í endann hver fær flestar festivalsbókanir og fékk FM Belfast gífurlega mikið af festivalsbókunum á sínum tíma, en sveitin er enn á fullu að spila hér og þar. Svo fékk Ásgeir Trausti mikið af bókunum þegar hann fór á Eurosonic árið 2013,“ bætir Sigtryggur við.

Ísland var svokölluð fókusþjóð á hátíðinni í fyrra en þá komu nítján íslensk nöfn fram á hátíðinni og þá var einnig boðið upp á pallborðsumræður um Iceland Airwaves og tónlistartengda ferðamennsku, enda Ísland verið mjög framarlega í tónlistarheiminum, sérstaklega miðað við höfðatölu.

Fleiri íslensk nöfn hafa gert góða ferð út eins og meðal annars Fufanu og Mammút. „Þetta er öflug bransa­hátíð og nú erum við að reyna að fá ákveðna aðila til að koma og tékka á ákveðnum böndum,“ segir Sigtryggur.

IQ Magazine verður meðal annars með umfjöllun um íslensku nöfnin á hátíðinni.

Sigtryggur segir mikið af umsóknum um að fá að koma fram á Eurosonic berast á ári hverju. „Við biðjum bönd um að sækja um. Það sóttu einhver fjörutíu til fimmtíu bönd um í fyrra og svo velur Eurosonic þau bönd sem koma fram. Við höfum ekki mikið um það að segja hvað þeir velja,“ segir Sigtryggur spurður út í fyrirkomulagið.

Eurosonic fer fram dagana 13.-16. janúar.


Tengdar fréttir

Vel nærðir á Eurosonic

Vefsíðan Clash Music hefur birt dóm um tónlistarráðstefnuna og hátíðina Eurosonic í Hollandi þar sem íslensk tónlist var í brennidepli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×