Skoðun

Boltinn hjá Alþingi

Silja Dögg Gunnarsdóttir skrifar
Stjórnvöld hafa lagt mikla vinnu í að greina stöðu húsnæðismála síðustu misserin. Einnig hefur verið öflugt samráð um frumvarpsgerð við fjölda aðila á þessu sviði. Aðilar vinnumarkaðarins hafa lagt til málanna eins og yfirlýsingin í tengslum við kjarasamningana sl. vor sýnir. Í henni eru mikilvægir þættir húsnæðismála tilgreindir. Ekki fer fram hjá neinum að félags- og húsnæðismálaráðherra hefur borið hitann og þungann af undirbúningi fjögurra frumvarpa til að bæta úr stöðunni með nýrri húsnæðisstefnu.

Tekjulágir á leigumarkaði

Húsnæðisfrumvörpin komu öll til Alþingis fyrir jól og velferðarnefnd er nú með þau til umfjöllunar. Mikilvægt er að þingmenn leggi kraft í nefndarstarfið þannig að unnt verði að lögfesta húsnæðisfrumvörpin. Félagsvísarnir, sem Hagstofan gefur út reglulega, gefa góðar vísbendingar um velferð á Íslandi. Þeir sýna að stór hluti þeirra sem eru undir lágtekjumörkum hér á landi eru á leigumarkaði. Stærstu hóparnir þar eru tekjulágir einstaklingar og einstæðir foreldarar og börn þeirra. Ný húsnæðisstefna gagnast m. a. þessum hópum.

Lægra verð

Mikilvægt er að ná fram áherslunni sem er lögð á fleiri og ódýrari íbúðir. Stefnan er að félagslega leigukerfið verði fjármagnað með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga sem nema um þrjátíu prósentum af stofnkostnaði. Framlögin, auk annarra þátta, ættu að leiða til þess að húsnæðiskostnaður tekjulágra einstaklinga nemi ekki hærra hlutfalli en um 25 prósentum af tekjum þeirra. Því ætti einstaklingur með 300 þús. kr. í laun að greiða að hámarki um 65 þús.kr. í húsnæðiskostnað í nýja kerfinu. Byggja á 2.300 íbúðir á næstu fjórum árum. Þegar forsendur eru skoðaðar kemur í ljós að útreikningar gera m.a. ráð fyrir einföldun á byggingarreglugerð og lækkun lóða- og gatnagerðargjalda. Það mun skila sér í lægri byggingarkostnaði. Þannig verður unnt að veita tekjulágum fjölskyldum, sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagskerfi sveitarfélaganna, aðgang að ódýru og öruggu leiguhúsnæði.

Ég treysti á að þingmenn liðki fyrir framgangi húsnæðisfrumvarpanna. Það er til mikils að vinna.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×