Erlent

Tortryggnir á vopnahléið

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Sýrlenskir slökkviliðsmenn slökkva elda sem kviknuðu í loftárásum á Douma. Loftárásir stjórnarhersins á svæði uppreisnarmanna kostuðu meira en hundrað manns lífið um helgina.
Sýrlenskir slökkviliðsmenn slökkva elda sem kviknuðu í loftárásum á Douma. Loftárásir stjórnarhersins á svæði uppreisnarmanna kostuðu meira en hundrað manns lífið um helgina. vísir/epa
Við sólarlag í gær átti að hefjast vopnahlé í Sýrlandi. Óttast var að það rynni fljótlega út í sandinn, eins og fyrri tilraunir. Einhverjar vonir eru samt bundnar við að þetta vopnahlé geti orðið upphafið að endalokum hinnar langvinnu borgarastyrjaldar í landinu.

Rússar og Bandaríkjamenn gerðu í síðustu viku með sér samkomulag, sem stjórn Bashars al Assad forseta og helstu fylkingar uppreisnarmanna tóku síðan undir.

Uppreisnarhóparnir hafa þó sumir hverjir verið afar hikandi og segjast óttast að Assad forseti muni nota tækifærið til að ráðast gegn þeim.

Samningurinn felur í sér að stjórnarherinn hætti árásum sínum á tiltekin svæði uppreisnarmanna og sumir hópar uppreisnarmanna láti sömuleiðis vera að herja á stjórnarherinn.

Rússar áttu að sjá til þess að stjórnarher Assads stæði við sitt, en Bandaríkjamenn áttu að sannfæra þá uppreisnarhópa, sem notið hafa stuðnings þeirra, um að hafa hemil á sér.

Á móti ætla Rússar og Bandaríkjamenn að taka höndum saman um hernað gegn Íslamska ríkinu og öðrum öfgasamtökum íslamista, sem ekki þykja líkleg til að fallast á friðsamlegar lausnir á átökunum.

Hjálparstofnanir segja síðan öllu skipta að geta komið hjálpargögnum til íbúanna. Það hefur gengið afar erfiðlega um langa hríð. Verst er ástandið í austurhluta Aleppo-borgar, sem uppreisnarmenn hafa á sínu valdi en stjórnarher Assads situr um og gerir linnulítið loftárásir á.

Stjórnarher Assads gerði harðar loftárásir á nokkur svæði uppreisnarmanna alveg fram á síðustu stundu. Meira en hundrað manns létu lífið í þeim árásum. Rússneski herinn gerði einnig loftárásir á uppreisnarmenn um helgina.

Assad forseti sagðist enn vera staðráðinn í að ná öllu landinu á sitt vald á ný. Allt þetta hefur ýtt undir tortryggni uppreisnarmanna.

Þá bendir fátt til þess að tyrkneski herinn ætli að hætta árásum á hersveitir Kúrda í Sýrlandi.

Borgarastyrjöldin í Sýrlandi hefur nú staðið yfir í meira en fimm ár, kostað hundruð þúsunda lífið og hrakið helming þjóðarinnar burt af heimilum sínum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×