Viðskipti innlent

Velta í smásöluverslun ekki verið meiri síðan 2008

Sæunn Gísladóttir skrifar
Sögulega var einkaneysla mjög mikil árið 2015 og litlu minni en þegar hún var mest árið 2007.
Sögulega var einkaneysla mjög mikil árið 2015 og litlu minni en þegar hún var mest árið 2007. vísir/vilhelm
Heildarvelta smásöluverslunar án virðisaukaskatts var á árinu 2015 tæpir 400 milljarðar króna samanborið við 376 milljarða árið áður. Vöxtur í veltu frá fyrra ári var 5,8 prósent og hefur ekki verið meiri milli ára frá hruni. Þetta kemur fram í Árbók verslunarinnar 2016.

Í Árbókinni kemur fram að heildarveltan hafi ekki náð sömu hæðum og fyrir hrun, þrátt fyrir kaupmáttaraukningu, en hafi hins vegar ekki verið hærri síðan árið 2008. Velta var mest í dagvöru og stórmörkuðum og nam þar 208 milljörðum króna.

Vísbendingar eru um að neysla sé frábrugðin frá neyslunni fyrir hrun. Einkaneysla jókst um fimm prósent á milli ára á meðan kaupmáttaraukning jókst um átta prósent, því er ekki öllum tekjum varið beint í neyslu.

Einkaneysla Íslendinga nam 1.128 milljörðum króna árið 2015 og jókst um tæp fimm prósent á milli ára. Sögulega var einkaneysla mjög mikil árið 2015 og litlu minni en þegar hún var mest árið 2007. Mestur var vöxturinn í kaupum á ökutækjum en þau jukust um 56,9 prósent frá fyrra ári.

Hlutur verslunar af landsframleiðslu árið 2015 var 9,6 prósent og hefur hlutur verslunar í landsframleiðslu ekki verið hærri frá 2007.

Athyglisvert er að mesta fjölgun verslana á síðasta ári var í flokki netverslana, eða um sex prósent. Áætlað er að velta innlendrar netverslunar árið 2015 hafi verið að lágmarki um fimm milljarðar króna og aukist um 27 prósent frá árinu áður.

Erlendir ferðamenn héldu áfram að strauja kort sín sem aldrei fyrr. Erlend kortavelta í verslunum jókst um 23 prósent milli ára og nam 22,7 milljörðum króna árið 2015. Hlutdeild þeirra af heildarveltu íslenskra smásöluverslana nam sex prósentum af heildarveltu árið 2015. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×