Erlent

„El Chapo“ skrefinu nær því að verða framseldur til Bandaríkjanna

Atli Ísleifsson skrifar
Joaquín „El Chapo“ Guzmán dvelur nú í öryggisfangelsi í bænum Ciudad Juarez, nærri bandarísku landamærunum.
Joaquín „El Chapo“ Guzmán dvelur nú í öryggisfangelsi í bænum Ciudad Juarez, nærri bandarísku landamærunum. Vísir/AFP
Mexíkóski eiturlyfjakóngurinn Joaquín „El Chapo“ Guzmán er nú skrefinu nær því að verða framseldur til Bandaríkjanna. Dómstóll í Mexíkó hafnaði í dag áfrýjun Guzman vegna framsalsins.

Í frétt BBC kemur frma að verjendur Guzman segi að þeir muni áfrýja úrskurðinum til æðra dómsstigs, alla leið til hæstaréttar landsins gerist þess þörf.

Guzman var handtekinn í janúar síðastliðinn eftir að hafa strokið úr öryggisfangelsi hálfu ári fyrr, en hann var forsprakki eiturlyfjahringsins alræmda, Sinaloa.

Mexíkóska utanríkisráðuneytið heimilaði í maí að Guzman skyldi framseldur til Bandaríkjanna, eftir að hafa fengið fullvissu um að Guzman biði ekki dauðadóms í landinu.

Bandarísk yfirvöld hafa ákært Guzman vegna ólöglegra eiturlyfjaviðskipta og morða, en hann dvelur nú í öryggisfangelsi í bænum Ciudad Juarez, nærri bandarísku landamærunum.

Guzman slapp úr Almoloya de Juarez fangelsinu í júlí 2015 í gegnum löng göng sem grafin höfðu verið úr fangaklefa hans. Göngin þóttu hin fullkomnustu en í þeim var meðal annars loftræstikerfi. Árið 2001 slapp hann úr öðru fangelsi og er talið að það hafi gerst eftir að hann mútaði fangavörðum til að koma sér fyrir meðal óhreina taus fanganna. 


Tengdar fréttir

Lygileg atburðarás leiddi til handtöku El Chapo

Bandaríski leikarinn Sean Penn er sagður hafa leitt yfirvöld að Joaquin Guzman, en hann tók leynilegt viðtal við hann stuttu eftir að hann slapp úr mexíkósku fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×