Handbolti

Karen í hóp þeirra fimm markahæstu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karen Knútsdóttir hefur skorað 277 mörk fyrir A-lið Íslands.
Karen Knútsdóttir hefur skorað 277 mörk fyrir A-lið Íslands. Fréttablaðið/Valli
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta mætir Sviss á morgun í Schenker-höllinni á Ásvöllum en íslensku stelpurnar töpuðu með minnsta mun úti í Sviss á fimmtudagskvöldið og eru enn að bíða eftir sínum fyrsta sigri í undankeppni EM 2016.

Íslenska liðið hefur nýtt sér heimavöllinn vel í undankeppnunum undanfarin ár og það er svo sannarlega kominn tími á sigur. Karen Knútsdóttir, fyrirliði íslenska liðsins, skoraði sex mörk í tapleiknum úti í Sviss og náði með því að komast í hóp fimm markahæstu landsliðskvenna Íslands frá upphafi.

Karen hefur nú skorað 277 mörk fyrir A-landsliðið og komst upp fyrir þær Dagnýju Skúladóttur (274) og Höllu Maríu Helgadóttur (273) á fimmtudagskvöldið.

Karen vantar nú þrettán mörk til að verða fjórða íslenska konan sem nær að skora þrjú hundruð landsliðsmörk en það enn langur vegur fyrir hana að jafna markamet Hrafnhildar Skúladóttur. Hrafnhildur hefur enn 343 marka forskot. Karen þarf því að spila í mörg ár í viðbót til að ógna meti Hrafnhildar en ætti að eiga góða möguleika á því að komast yfir 300 marka múrinn í þessari undankeppni. Íslenska liðið á eftir þrjá leiki, leikinn á morgun og svo tvo leiki í júnímánuði.

Íslensku stelpurnar verða að vinna Sviss í dag til þess að eiga möguleika á þriðja sætinu en tap myndi þýða að þær enduðu í neðsta sæti riðilsins.

Leikur Íslands og Sviss hefst klukkan 16.30 á Ásvöllum í Hafnarfriði á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×