Erlent

Breskur maður ber kennsl á son sinn í aftökumyndbandi ISIS

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Fangarnir sem myrtir eru í myndbandinu eru allir Kúrdar.
Fangarnir sem myrtir eru í myndbandinu eru allir Kúrdar. Vísir/skjáskot
Hryðjuverkasamtökin ISIS hafa birt myndband þar sem fimm ungir drengir myrða fimm fanga. Einn drengjanna er breskur og hefur faðir hans stigið fram og sagt hann vera son sinn og eftirlýsta hryðjuverkakvendisins Sally Jones.

Í myndbandinu kemur fram að drengirnir séu frá Bretlandi, Túnis, Egyptalandi, Úsbekistan og að einn sé Kúrdi. Á vef CNN kemur fram að mennirnir sem myrtir eru í myndbandinu séu allir Kúrdar.

Breski drengurinn segir ekkert í myndbandinu, en eina barnið sem talar er sagt vera frá Túnis. Faðir breska drengsins hefur borið kennsl á hann sem son sinn Jojo, sem hann á með eftirlýstum hryðjuverkamanni að nafni Sally Jones. Hann segir þau hafa slitið sambandi sínu stuttu eftir að drengurinn fæddist og að Jones hafi tekið upp múslimatrú stuttu eftir það.

Hún giftist stuðningsmanni ISIS stuttu seinna og parið flúði með Jojo til Sýrlands árið 2013 þegar drengurinn var 10 ára gamall. Talið er að eiginmaður hennar hafi látið lífið í dróna-árás á síðasta ári.

ISIS hafa sífellt aukið notkun barna við hryðjuverk, notfært sér þau við gerð áróðursefnis og látið þau fremja ýmis ódæðisverk. Samtökin halda úti umfangsmiklum barnaher og eru börnin allt niður í sjö ára gömul.

Notkun á börnum undir 15 ára aldri í hernaði er skilgreind sem stríðsglæpur af alþjóðlega glæpadómstólnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×