Ef samningarnir sem undirritaðir voru í dag verða samþykktir í almennri atkvæðagreiðslu launafólks hefur verið komið í veg fyrir mikla óvissu á vinnumarkaði á vormánuðum að mati forystumanna aðila vinnumarkaðarins.

Samningurinn felur í sér að laun hækka um 6,2% frá og með 1. janúar síðast liðnum í stað 5,5, prósenta hinn fyrsta 1. maí í vor. Í stað þriggja prósenta hækkunar launa hinn 1. maí á næsta ári hækka laun um 4,5% og í stað tveggja prósenta hækkunar 1. maí 2018 hækka laun um þrjú prósent.
Þá verða lífeyrisréttindi á almennum vinnumarkaði í áföngum færð til þess sem þau eru hjá opinberum starfsmönnum þannig að framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð starfsmanna hækkar úr átta prósentum af launum í 11,5 prósent fram til ársins 2018.
„Þannig að þetta mun bæði finnast í buddunni en líka á komandi árum í réttindum okkar fólks,“ sagði Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambandsins að lokinni undirskrift í dag.
Prósentan umfram það sem búið var að semja um á síðasta ári, hver er hún á samningstímanum?

Stjórnvöld hafa ekki gefið út formlega yfirlýsingu um aðgerðir að þeirra hálfu í tengslum við samningana. Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að samtökin hins vegar telja sig hafa öruggt loforð stjórnvalda um að þau lækki tryggingagjaldið nægjanlega til að mæta auknum launakostnaði atvinnulífsins við að leiðrétta laun á almennum markaði til samræmis við launahækkanir opinberra starfsmanna.
„Við höfum átt samtöl við stjórnvöld núna undanfarna daga og fengið þau vilyrði fyrir mótvægisaðgerðum og lækkun tryggingagjaldsins sér í lagi sem við teljum að muni duga til þess að við treystum okkur til að ganga frá þessum samningum núna,“ segir Þorsteinn.
Hafið þið tryggingu fyrir einhverri lækkun á þessu ári?
„Já við teljum okkur hafa vilyrði fyrir lækkun á þessu ári og að það verði komið vel til móts við þær kröfur sem við höfum sett fram. En það bíður endanlegs milli aðila um hvernig það verður nákvæmlega útfært,“ segir Þorsteinn.
Samningurinn á eftir að fara í atkvæðagreiðslu hjá félagsfólki í þeim fjölmörgu verkalýðsfélögum sem standa á bakvið samninginn. Forseti ASÍ er bjartsýnn á að samningurinn verði samþykktur.
„Já ég er nokkuð bjartsýnn á það. En auðvitað eru það okkar félagsmenn sem á endanum hafa úrskurðarvaldið. Þetta verður þá gert í samræmdri atkvæðagreiðslu. Það er reyndar í fyrsta skipti sem það hefur verið gert í 100 ára sögu Alþýðusambandsins. Að það verði ríflega 80 þúsund manns sem taki afstöðu og dæmi þetta verkefni,“ segir Gylfi Arnbjörnsson.