Innlent

Hælisleitandi reyndi að kveikja í sér

Snærós Sindradóttir skrifar
Vísir
Hælisleitandi reyndi að kveikja í sér á fundi kærunefndar útlendingamála í gær. Lögregla var kölluð til og maðurinn handtekinn strax í kjölfarið.

Maðurinn er skjólstæðingur Rauða krossins en til kærunefndar útlendingamála koma mál þeirra sem kæra úrskurð Útlendingastofnunar um synjun landvistarleyfis eða hælis.

„Við leggjum áherslu á að þetta var einstakt tilvik og engan veginn lýsandi fyrir okkar skjólstæðinga. Þetta mun ekki hafa nein áhrif á þá þjónustu sem við höfum veitt okkar skjólstæðingum hingað til og komum til með að veita,“ segir Björn Teitsson, verkefnisstjóri upplýsingamála hjá Rauða krossinum.

Frá og með 1. júlí síðastliðnum var kærunefndin efld og nefndarmönnum fjölgað í takt við breytingu á lögum um útlendinga sem samþykkt voru á Alþingi í maí. Í lok janúar á þessu ári voru 79 umsóknir um alþjóðlega vernd til skoðunar hjá kærunefnd útlendingamála. Umsóknir um vernd tvöfölduðust á milli áranna 2014 og 2015 en aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum frá því mælingar hófust. Árið 2015 var hæli einungis veitt í fjórðungi tilfella.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hælisleitandi gerir tilraun til að kveikja í sér. Í mars á þessu ári hellti hælisleitandi yfir sig bensíni og hótaði að kveikja í. Þá gerði annar hælisleitandi slíkt hið sama fyrir utan húsnæði Rauða krossins í ágúst á síðasta ári. Fleiri sambærileg tilvik hafa komið upp á síðastliðnum árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×