Erlent

Liðsmenn ISIS eyðilögðu elsta munkaklaustrið í Írak

Atli Ísleifsson skrifar
Klaustur heilags Elía, eða Deir Mar Elia, stóð á hæð nærri borginni Mosul í um 1.400 ár. Talið er að klaustur hafi verið reist af assýrískum munkum seint á sjöttu öld.
Klaustur heilags Elía, eða Deir Mar Elia, stóð á hæð nærri borginni Mosul í um 1.400 ár. Talið er að klaustur hafi verið reist af assýrískum munkum seint á sjöttu öld. Mynd/Wikipedia
Gervihnattamyndir sýna að liðsmenn ISIS hafi eyðilagt elsta munkaklaustrið í Írak. Klaustur heilags Elía stóð á hæð nærri borginni Mosul í um 1.400 ár.

Í frétt BBC kemur fram að myndir bendi til þess að klaustrið hafi verið sprengt síðla árs 2014, fljótlega eftir að vígamenn ISIS náðu tökum á Mosul.

Paul Thabit Habib, kaþólskur prestur frá Mosul sem nú dvelur í borginni Irbil, segir að verið sé að eyðileggja kristilega sögu landsins með villimannslegum hætti.

Liðsmenn ISIS hafa ofsótt kristna í Írak og nágrannalandinu Sýrlandi, lagt hald á eignir og neytt þá til að flýja heimili sín.

Þeir hafa sömuleiðis eyðilagt margar af mesti menningar- og fornminjum þessa svæðis, meðal annars fornu borgirnar Nimrud, Hatra og Nineveh í Írak og Palmyra í Sýrlandi.

Talið er að klaustur heilags Elía, eða Deir Mar Elia, hafi verið reist af assýrískum munkum seint á sjöttu öld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×