Erlent

Hjálpargögn send til Madaja

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Bílalest með hjálpargögn leggur af stað frá höfuðborginni Damaskus til Madaja.
Bílalest með hjálpargögn leggur af stað frá höfuðborginni Damaskus til Madaja. Nordicphotos/AFP
Bílalest, hlaðin nauðsynjavörum, hélt í gær af stað til bæjarins Madaja í Sýrlandi þar sem íbúar hafa liðið skort mánuðum saman vegna umsáturs stjórnarhersins í landinu.

Þetta er í fyrsta sinn síðan í október síðastliðnum sem Rauða krossinum hefur tekist að koma brýnustu nauðsynjum til Madaja. Byrjað var á að fara með matarpakka þangað, en á næstu dögum á að flytja þangað lyf, teppi og önnur hjálpargögn.

Þúsundir manna hafa verið innikróaðar í bænum og nokkrir hafa nú þegar látist úr hungri.

Í gær var einnig haldið af stað með nauðsynjar til fólks á fleiri stöðum í Sýrlandi, sem hafa verið innilokaðir vegna átaka og umsáturs annaðhvort stjórnarhersins eða uppreisnarhópa.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna segir að nærri 400 þúsund manns þurfi á brýnni aðstoð að halda á samtals fimmtán svæðum í Sýrlandi, sem erfitt er að komast til vegna átaka og umsáturs stjórnarhersins eða uppreisnarmanna. Vandinn í heild er þó enn meiri, því meira en fjórar milljónir manna búa á átakasvæðum sem erfitt er að ferðast um.

Madaja er rétt vestan við höfuðborgina Damaskus, skammt frá landamærum Líbanons. Þar eru rúmlega 40 þúsund manns sem eiga erfitt með að draga fram lífið vegna skorts á brýnustu nauðsynjum.

Á samfélagsmiðlum hafa stuðningsmenn Bashars al Assad Sýrlandsforseta undanfarna daga farið háðulegum orðum um þjáningar hinna hungrandi íbúa Madaja. Þá sögðu sumir þeirra myndir af sveltandi fólki þar hljóta að vera falsaðar.

Stjórnarherinn lokaði seint í desember öllum leiðum til Madaja og krafðist þess að uppreisnarmenn þar gæfust upp.

Í lok síðustu viku sendu Sameinuðu þjóðirnar frá sér yfirlýsingu þar sem skorað var á stjórnarherinn að opna hjálparstofnunum leið til Madaja og vísaði til þess að samkvæmt alþjóðalögum sé bannað að svelta almenna borgara í þeim tilgangi að ná yfirhöndinni í vopnuðum átökum.

Stjórn Sýrlands heimilaði í kjölfarið hjálparstofnunum að fara með nauðsynjar til Madaja og fleiri svæða, sem einangruð hafa verið vegna umsáturs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×