Lífið

Svikinn um miða í gær en fékk áritaðan bolta í dag

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
"Að þeir hafi verið til í að gera okkur þennan greiða var ómetanlegt, brosið sem Mikael Darri gaf okkur öllum að launum var hinsvegar nógu stórt til að bræða hálfan hnöttinn. Á myndinni er lítið annað en geðshræring þegar hann er enn að reyna átta sig á þessu,“ skrifar Óskar.
"Að þeir hafi verið til í að gera okkur þennan greiða var ómetanlegt, brosið sem Mikael Darri gaf okkur öllum að launum var hinsvegar nógu stórt til að bræða hálfan hnöttinn. Á myndinni er lítið annað en geðshræring þegar hann er enn að reyna átta sig á þessu,“ skrifar Óskar. mynd/óskar páll
„Ég heyrði bara í Hannesi,“ segir Óskar Páll Elfarsson í samtali við Vísi. Óskar reddaði bolta, árituðum af landsliðsmönnunum okkar, fyrir son félaga síns sem missti af leiknum við Frakka í gær.

Vinur Óskars Páls var einn þeirra sem keypti miða af Birni Steinbekk á leikinn. Hann var einnig einn af þeim sem sat eftir með sárt ennið. „Þessi leikur átti að vera yndisleg stund með níu ára stráknum mínum. Því miður breyttist það í martröð, fengum ekki miðana sem okkur var lofað og búnir að borga fyrir,“ skrifar Stefán Svan Stefánsson í Ferðagrúppa fyrir EM2016.

Óskar segir að hann hafi fyrst byrjað á því að tala við fólk hjá KSÍ en það gat lítið fyrir hann gert. Hann hafi því prófað að senda skilaboð á markvörðinn Hannes Þór Halldórsson þar sem hann fór yfir stöðuna.

„Ég valdi Hannes eiginlega af handahófi. Margir aðrir í liðinu eru með aðdáendasíður á Facebook en Hannes er þar bara sem hann sjálfur,“ segir Óskar.

Hannes svaraði kallinu og bauð þeim að líta við í kvöld þar sem landsliðsmennirnir voru að borða á veitingastað ásamt kærustum, unnustum og eiginkonum. Þar árituðu nokkrir úr liðinu bolta fyrir drenginn.

„Það er eiginlega ótrúlegt að eftir alla þessa leiki og þetta ferðalag hafi þeir gefið sér tíma í þetta. Ég er viss um að þetta væri ekkert endilega hægt með önnur landslið,“ segir Óskar. „Mér þykir þetta meðal annars sýna það svart á hvítu hvað það eru frábærir strákar í þessu liði.“

Boltinn áritaði verður vel varðveittur af drengnum. „Ég veit ekki hvort það verður mikið sparkað í hann. Hann var allavega að tala um það að það þyrfti að finna eitthvað til að varðveita hann.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.