Erlent

Ný löggjöf neyðir fólk til að plægja akra Venesúela

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Nicolas Maduro er forseti Venesúela.
Nicolas Maduro er forseti Venesúela. vísir/nordic photos
Í síðustu viku skrifaði Nicolas Maduro, forseti Venesúela, undir tilskipun sem leggur nokkurs konar „verkamannaskyldu“ á herðar íbúa landsins. Tilskipuninni hefur verið mótmælt af mannréttindasamtökum víða um heim.

Samkvæmt lögunum er hægt að krefja „alla starfsmenn ríkisins, sem og annara fyrirtækja, sem hafa heilsu og líkamlega burði til, um að vinna í landbúnaði landsins.“ Markmið tilskipunarinnar er að auka matvælaframleiðslu Venesúela en skortur hefur verið á matvöru í marga mánuði þar í landi. Samkvæmt henni verður hægt að krefja fólk um sextíu daga vinnu á ökrunum auk sextíu daga til viðbótar krefjist aðstæður þess.

„Að ætla að berjast gegn matvælaskorti með því að þvinga fólk til að vinna á plantekrum er eins og að reyna að lækna beinbrot með plástri,“ segir í yfirlýsingu á vef Amnesty International.

Skortur á nauðsynjum hefur verið viðvarandi í Venesúela í kjölfar þess að heimsmarkaðsverð á olíu tók duglega dýfu. Ástandið hefur versnað mjög á undanförnum mánuðum og hafa átök brotist út þar sem fólk berst um bita. Talið er að meðalmaðurinn í Venesúela verji tæplega einum og hálfum sólarhring í mánuði hverjum í röð eftir mat.

Fyrr í þessum mánuði slökuðu landamæraverðir í landinu tímabundið á eftirliti. 120.000 manns flykktust yfir landamærin til Kólumbíu, til borgarinnar Cúcuta, þar sem þeir hömstruðu nauðsynjar og matvæli. Svo til allar hillur verslana þar í borg voru tómar eftir að fólkið sneri heim á nýjan leik.

Ekki sér fyrir endann á ástandinu en Maduro, og aðrir embættismenn, segja skortinn þar í landi vera vegna þess að landið sé nú í efnahagslegu stríði gegn aðilum sem vilji bregða fæti fyrir sósíalíska stjórn landsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×