Lífið

Missti putta á Secret Solstice: „Heilinn er ekki búinn að meðtaka að puttinn er farinn“

Birgir Olgeirsson skrifar
Puttinn varð eftir þegar Viljar Már reyndi að stytta sér leið yfir grindverk til að komast á tjaldsvæðið.
Puttinn varð eftir þegar Viljar Már reyndi að stytta sér leið yfir grindverk til að komast á tjaldsvæðið. Vísir/Viljar Már
„Heilsan er bara fín, bara mínus þessi putti, ég get bara talið upp að níu, en annars allt í lagi,“ segir Viljar Már Hafþórsson sem missti baugfingur á hægri hendi þegar hann stytti sér leið inn á tjaldsvæði tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice í Laugardal í Reykjavík aðfaranótt föstudags.

Viljar Már á sjúkrahúsinu.Vísir
„Síðan flæktist fingurinn í grindverkinu þegar ég hoppa af og puttinn varð eftir á grindverkinu,“ segir Viljar Már í samtali við Vísi um óhappið en Viljar er rétthentur. Hann segist hafa fundið strax og hann lenti að ekki var allt með felldu. Hann leit á höndin og sá þar hálft bein sem stóð út og puttann hangandi á grindverkinu. 

Hann segir verkinn hafa horfið fljótt þegar adrenalínið tók yfir. Sjúkraflutningamenn voru snöggir á vettvang og hlúðu að Viljari Má en hann segir sjálfur svo frá að óvenju lítil blæðing hafi hlotist af þessu óhappi. Sjúkraflutningamennirnir sóttu puttann sem fékk hins vegar „dauðadóm“ frá læknum við komuna á sjúkrahúsið og var í kjölfarið brenndur og nú orðinn að ösku. 

„Hann rifnaði allt of mikið, skinnið í tætlur og beinið brotnaði. Það var ekki hægt að festa hann aftur á,“ segir Viljar Már. Hann segir læknana hafa verið ánægða með hve vel Viljar Már tók þessu óhappi. Hann var sólarhring á sjúkrahúsi þar sem hann var sendur í aðgerð til að gera að hendinni en eftir það lá leið hans beint aftur á Solstice-hátíðina.

Viljar Már fór á puttanum heim til Akureyrar eftir hátíðina.Vísir/Viljar Már
Hann segist finna fyrir vofuverkjum nú þegar puttinn er farinn. Með orðinu vofuverkur er átt við það þegar fólk missir útlim en finnur samt endrum og sinnum til í honum, en Vísindavefur Háskóla Íslands tekur sem dæmi kláða eða annan verk.

„Heilinn er ekki búinn að meðtaka að puttinn er farinn, hann heldur að hann sé þarna enn þá,“ segir Viljar Már sem gengst við að sakna hans en hann starfar sem þjónn en í því starfi kemur fingrafimi sér vel og verður Viljar Már því frá vinnu í einhvern tíma núna. Hann býr og starfar á Akureyri en eftir að hátíðinni lauk fór hann „á puttanum“ heim.

 „Þetta er skemmtilegt óhapp, góð saga til að segja frá. Það er ekkert sem ég get gert í því. Hann er farinn og orðinn að ösku.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.