Enski boltinn

Kristján um aðsóknina: Ekkert skrítið þótt fólkið komi ekki á völlinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pepsi-mörkin voru dagskrá Stöðvar 2 Sports í gærkvöldi en þar var farið yfir 8. umferð Pepsi-deildar karla.

Hörður Magnússon var á sínum stað en gestir hans í gær voru þeir Logi Ólafsson og Kristján Guðmundsson.

Meðal þess sem þeir félagar ræddu var sú skelfilega aðsókn sem var á leiki umferðarinnar en það var nóg af lausum sætum á öllum völlum.

Kristján setur spurningarmerki við þá ákvörðun KSÍ að spila leiki á meðan á EM í Frakklandi stendur.

„Það voru 10.000 manns á leikjunum í riðlakeppninni,“ sagði Kristján.

„Ég var á tveimur þessara leikja og þegar maður horfði á fólkið sá maður að þetta er fólkið sem maður sér á vellinum hér heima í hverri einustu viku. Þetta er fólkið sem er að vinna við leikina hjá félögunum.

„Mér finnst það ótrúlegt að það sé verið að spila. Auk þess eru yngri flokka mótin í fullum gangi þar sem foreldrarnir eru að elta börnin sín. Það er ekkert skrítið þótt fólkið komi ekki á völlinn.“

Logi vill sjá meira púður lagt í markaðssetningu á Pepsi-deildinni.

„Það hefði kannski mátt skipuleggja þetta eitthvað betur fyrst það fara svona margir knattspyrnuáhugamenn til Frakklands,“ sagði Logi.

„Svo mættu menn alveg setja einhvern pening í að halda merki Pepsi-deildarinnar á lofti og koma með auglýsingar eða eitthvað slíkt.“

Innslagið má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×