Ólöf greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni þar sem hún segir síðustu vikur hafa verið ólýsanlegar og margt gengið á. Hún var lögð inn vegna lungnabólgu og sýkingar.
„Ég naut einstakrar umönnunar á kvennadeild Landspítalans og verð alltaf þakklát fyrir fólkið sem þar starfar. Það er þeim að þakka að ég er núna komin hingað heim.
Kærar kveðjur sendi ég öllum þeim sem hafa sent mér bataóskir og haft samband við mig með ýmsum hætti á undanförnum vikum. Framundan er að safna kröftum. Það verður ærið verkefni fyrir mig,“ segir Ólöf.
Ólöf er varaformaður Sjálfstæðisflokksins og skipaði efsta sæti á lista hans í Reykjavík suður í nýafstöðnum þingkosningum.
Ólöf greindist með krabbamein sumarið 2014. Greint var frá því í maí síðastliðinn að hún hefði lokið við lyfjameðferð sem hófst í janúar. Í lok síðasta árs kom í ljós við reglubundið eftirlit hækkun á svokölluðum æxliskvíslum í blóði sem mæla framgang og stöðu krabbameins og var því nauðsynlegt að bregðast strax við.