Erlent

Prince vann samfleytt í 154 klukkutíma áður en hann lést

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Prince var aðeins 57 ára gamall þegar hann lést.
Prince var aðeins 57 ára gamall þegar hann lést. vísir/getty
Bandaríski tónlistarmaðurinn Prince vann í 154 klukkutíma samfleytt án þess að sofa dagana áður en hann fannst látinn í lyftu á heimili sínu, Paisley Park í Minnesota. Þetta er haft eftir mági Prince, Mauric Phillips, á vef Sky News.

Phillips segir Prince hafi unnið án þess að stoppa dagana sex áður en hann lést. Söngvarinn fannst látinn á fimmtudag en hafði síðast sést á lífi 12 tímum áður.

Bálför hans fór fram í kyrrþey í gær en dánarorsök liggur enn ekki fyrir. Krufning fór fram á föstudaginn en niðurstöður hennar munu ekki liggja fyrir á næstunni. Yfirvöld segja þó að engin merki um meiðsli hafi fundist á líkama Prince og ekkert þykir benda til þess að hann hafi framið sjálfsmorð.

Prince var margverðlaunaður tónlistarmaður. Þekktasta verk hans er án efa Purple Rain sem kom út árið 1984 ásamt samnefndri mynd. Prince hlaut Óskarsverðlaunin fyrir tónlist sína í myndinni auk þess sem titillag plötunnar var útnefnt besta lag níunda áratugarins af tónlistarvefnum Pitchfork.

Í frétt Sky kemur fram að heimili Prince að Paisley Park verði breytt í safn.

„Það yrði fyrir aðdáendur hans sem áttu hug hans allan,“ segir mágur hans. „Á safninu yrði tónlistar hans minnst enda er það arfleið hans.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×