Viðskipti innlent

Landsliðsmaður flytur inn ítölsk léttvín

ingvar haraldsson skrifar
Emil Hallfreðsson hefur verið fastamaður í landsliðinu síðustu ár. Hér má sjá Emil þjóta fram hjá Robin Van Persie, framherja hollenska landsliðsins í 2-0 sigri Íslands á Laugardalsvelli árið 2014.
Emil Hallfreðsson hefur verið fastamaður í landsliðinu síðustu ár. Hér má sjá Emil þjóta fram hjá Robin Van Persie, framherja hollenska landsliðsins í 2-0 sigri Íslands á Laugardalsvelli árið 2014. vísir/vilhelm
„Vonandi kemur maður með eitthvað heim sem fólk kann að meta,“ segir Emil Hallfreðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, sem hefur ásamt Ágústi Reynissyni, Hrefnu Rósu Sætran og Guðlaugi Pakpum Frímannssyni stofnað fyrirtæki utan um innflutning á víni til Íslands. Þau þrjú síðastnefndu hafa rekið veitingastaðina Grillmarkaðinn og Fiskmarkaðinn.

Emil segir ætlunina að flytja inn ítölsk vín en hann hefur leikið með Hellas Verona á Ítalíu frá árinu 2010.„Ég hef komist í sambönd við nokkra aðila hérna úti, sérstaklega í Valpolicella-dalnum sem er hérna rétt fyrir utan Verona,“ segir Emil en Valpolicella-dalurinn er þekkt vínræktarhérað.

„Ég held að það séu 200 mismunandi vínfyrirtæki bara hérna í Verona og Valpolicella-dalnum,“ segir hann.

Miðjumaðurinn knái segir vínáhugann hafa kviknað eftir að hann hóf að leika á Ítalíu. „Ef ég á að segja eins og er þá drakk ég ekki einu sinni áfengi fyrr en ég flutti til Ítalíu. Ég hugsaði að ef ég ætla einhvern tímann að smakka áfengi, rauðvín og kaffi þá ætla ég að byrja að gera það á Ítalíu.“ Honum hafi verið boðið í vínsmakkanir og hann hafi látið til leiðast. „En maður drekkur þetta í hófi,“ segir landsliðsmaðurinn.

„Svo er aldrei að vita nema maður fjárfesti í einni vínekru áður en maður flytur heim“ segir Emil léttur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×