Ögmundur Jónasson, þingmaður vinstri grænna og fyrrverandi ráðherra, segir tvennt þurfa að gerast í íslensku samfélagi í kjölfar umfjöllunar kvöldsins. Hann vill banna viðskiptabönkum að fást við fjárfestingar. Þetta kemur fram í bloggfærslu Ögmundar í kvöld.
„Frægt varð þegar Geir H. Haarde bað almættið að blessa Ísland í þann veginn sem Hrunið var að bresta á. Margt fór vissulega á betri veg en á horfðist þessa haustdaga árið 2008. Íslendingar lögðust á árarnar og saman komumst við á lygnari sjó. Eða það héldum við, ekki vitandi að forsætisráðherrann þáverandi var ekki bænheyrður - alla vega ekki til langs tíma,“ segir Ögmundur.
Nú sé komið í ljós, eftir allar rannsóknarskýrslurnar og allar heitstrengingarnar, að 800 aflandsfélög tengist Íslendingum sem fyrir bragðið verði að „viðundri á heimsvísu.“
„Í ljós kemur að forsætisráðherra og fjármálaráðherra tengjast félögum í paradísum peninganna og vafasömum fjármálagerningum sem þaðan er stýrt. Minni fréttir voru að Landsbankinn skuli hafa haft leiðandi hlutverk í gjörningum þessa siðlausa fjármálaheims. Það höfðum við vitað lengi enda yfirlýst stefna hans frá því fyrir hrun að þjóna stóreignafólki til að koma eignum sínum í felur.“
Segir Ögmundur tvennt þurfa að gerast:
1) Skipta þarf um ríkisstjórn í landinu þegar í stað.
2) Stokka þarf upp bankakerfið, stofna samfélagsbanka og banna viðskiptabönkum að fást við fjárfestingastarfsemi.
„Þetta gæti verið byrjunin. En byrjun verðum við að fá. Svona gengur þetta ekki lengur.“

