Innlent

Jafnaðarmenn ræði sín baráttumál og hætti að láta soga sig inn í innanflokksmein

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og frambjóðandi til formanns flokksins.
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og frambjóðandi til formanns flokksins. Vísir/Vilhelm
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og frambjóðandi til formanns flokksins, segist ekki óttast að flokkurinn verði með innan við 10 prósent fylgi í þingkosningum í haust en í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins mælist flokkurinn með 7,4 prósent fylgi.

Hún segir enga einfalda skýringu á því hvers vegna Samfylkingin mælist svo lág í skoðanakönnunum en flokkurinn hafi ákveðið að blása til formannskosninga í júní vegna stöðu hans.

„Við erum í þeim fasa núna og erum að skerpa á okkar baráttumálum og munum koma út úr landsfundi með nýja forystu og skýr stefnumarkmið og þá munum við snúa þessari stöðu við,“ segir Oddný í samtali við Vísi.

Hún segist telja að hún geti sameinað ólík sjónarmið innan flokksins.

„Formaður er í þeirri stöðu að setja mál á dagskrá og ég vil komast í þá stöðu og að við í Samfylkingunni, jafnaðarmannaflokki Íslands, förum að tala um okkar baráttumál, um okkar hjartans mál, og hættum að láta soga okkur inn í einhver innanflokksmein. Það sem skiptir máli eru baráttumál jafnaðarmanna og hugsjónir okkar.“

Oddný segist algjörlega ósammála þeirri hugmynd Magnúsar Orra Schram sem einnig er í framboði til formanns Samfylkingarinnar um að leggja flokkinn niður og stofna nýja stjórnmálahreyfingu.

„Við eigum að sinna hugsjónum jafnaðarmanna. Við í Samfylkingunni þurfum að gera það sem við ætluðum okkur að gera, safna okkur saman, kjósa nýja forystu og skerpa á okkar áherslumálum áður en við förum í samtal við aðra flokka, hvort sem það er um samstarf eða sameiningu.“


Tengdar fréttir

VG bætir við sig tæpum sex prósentum

Tæplega 20 prósent myndu kjósa VG ef kosið yrði til þings núna. Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar eru stærstir og hafa rúmlega 30 prósenta fylgi hvor um sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×