Bíó og sjónvarp

Nilli í fyrsta skipti á hvíta tjaldinu

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Nilli í hlutverki Diðriks, en hann er kvikmyndanörd.
Nilli í hlutverki Diðriks, en hann er kvikmyndanörd.
„Það vildi svo skemmtilega til að ég fékk lítið hlutverk í myndinni, ég leik Diðrik en honum bregður fyrir nokkrum sinnum og fær meira að segja nokkrar línur, Diðrik er kvikmyndanörd og fastagestur í verslun aðalhetjunnar, Hrings, sem er leikinn af Atla Rafni Sigurðssyni,“ segir Nilli stoltur og bætir við að þetta sé lífsreynsla fyrir lífstíð og að hann geti búið að þessari reynslu alla ævi.

Reykjavík er dramatísk kómedía um sambönd og samskipti og gerist í samtímanum. Þetta mun vera frumraun Nilla á hvíta tjaldinu. Þó að hann hafi verið með hlutverk í myndinni var hann í upprunalega ráðinn til þess að sjá um leikmuni en starf hans þróaðist heldur betur, þar sem hann sá alfarið um leikmyndina.

„Ég annaðist leikmyndina, en ég mundi ekki kalla mig leikmyndahönnuð, ef ég gerði það þá yrði það móðgun við leikmyndahönnuði í kvikmyndaiðnaði þessa lands. Ég reisti vídeóbúð á Óðinstorgi og kom heilli íbúð fyrir á Leifsgötu á fimmtu hæð, þar sem engin lyfta var. Ég er ekki frá því að ég hafi lést um heil sjö kíló. Framleiðandi myndarinnar, Sölmundur Ísak, Daníel Gylfason, Haraldur, Dagur og kærasta mín, hún Maríanna, hjálpuðu mér mjög mikið,“ segir Nilli aðspurður hvort hann sé leikmyndahönnuður fyrir kvikmyndina Reykjavík eftir Ásgrím Sverrisson.

Nilli, begður fyrir í kvikmyndinni Reykjavík sem frumsýnd verður í lok næstu viku. fréttablaðið/Anton
„Margt af því sem við sjáum í myndinni er reist leikmynd, og það setti ég upp ásamt kærustinni minni, Maríönnu Rún Kristjánsdóttur, og góðum RÚV-urum, meðal annars Sigga Óla sem var okkar helsti klettur í framkvæmdunum. Maríanna mín keyrði mig svo út um allan bæ til að sanka að mér alls konar hlutum til að nýta í myndina, það var ómetanlegur stuðningur því án hennar hefði mér ekki tekist þetta,“ segir Nilli sem er fullur þakklætis fyrir að eiga góða að.

Í dag starfar Nilli sem sem sýningarstjóri hjá Íslensku óperunni í Hörpu og líkar það mjög vel.

„Það er mjög gaman að vinna með Íslensku óperunni, en um þessar mundir er óperan að sýna verkið Don Giovanni eftir Wolfgang Amadeus Mozart sem er að vekja mikla lukku hjá áhorfendum,“ segir Nilli.


Tengdar fréttir

Ásgrímur fer með Reykjavík til Gautaborgar

Ásgrími Sverrissyni kvikmyndaleikstjóra hefur verið boðið að kynna kvikmynd sína Reykjavík fyrir söluaðilum og hátíðum á kaupstefnu kvikmyndahátíðarinnar í Gautaborg, sem hefst 29. janúar.

Þetta er allt gert með hjartanu

Atli Rafn Sigurðarson leikur aðalhlutverkið í nýjustu mynd Ásgríms Sverrissonar, Reykjavík sem frumsýnd verður 11. Mars næstkomandi. Ásgrímur er um þessar mundir á kvikmyndahátíð í Gautaborg þar sem hann kynnir myndina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×