Sóttvarnareftirlitið í Bandaríkjunum hefur staðfest að Zika-veiran valdi fósturskaða eins og áður var óttast. Hingað til nú var ekki búið að sýna fram á tengsl á milli veirunnar og fósturskaða á borð við smáheila.
Þúsundir barna í Brasilíu fæddust á síðasta ári með smáheila eða microcephaly, sjaldgæfur heila- og taugasjúkdómur sem getur haft alvarleg áhrif á andlegan og líkamlegan þroska barna en börnin fæðast með óvenjulega lítil höfuð.
Tilfellum smáheila fjölgaði mjög í kjölfar útbreiðslu Zika-veirunnar. Var því talið að tengsl mætti finna þar á milli og hófu vísindamenn Sóttvarnareftirlitsins í Bandaríkjunum rannsókn. Hafa þeir nú sýnt fram á að tengsl séu á milli Zika-veirunnar og smáheila en niðurstöður þeirra voru kynntar í New England Journal of Medicine.
„Rannsókn okkar markar tímamót, það liggur nú fyrir að að Zika-veiran orsakar smáheila,“ sagði Tom Frieden, forstöðumaður Sóttvarnareftirlitsins. Moskító-flugur geta borið veiruna á milli manna sem getur einnig smitast við kynferðismök.
Bandarískir heilbrigðisstarfsmenn hafa varað við því að útbreiðsla Zika-veirunnar geti haft alvarlegri áhrif en í fyrstu var talið. Núverandi faraldur Zika-veirunnar hófst á síðasta ári í Brasilíu og hafa tilfelli greinst víða um heim. Flest tilfellin hafa þó greinst í ríkjum Suður og Mið-Ameríku. Barnshafandi konum er ráðlagt að ferðast ekki til flestra landa í þessum heimshluta.
Vísindamenn staðfesta að Zika-veiran valdi fósturskaða

Tengdar fréttir

Barnshafandi konur sérstakt áhyggjuefni
Ekki er hætta á zikaveirusjúkdómur verði landlægur á Íslandi en sóttvarnalæknir segir sjálfsagt að fólk sem hyggur á ferðalög á svæðinu sé á varðbergi.

Landlæknir: Karlmenn noti smokka eftir ferðalag til Mið- og Suður-Ameríku
Landlæknir hefur gefið út leiðbeiningar um varnir gegn Zika-veiru.

Zika vírusinn ógnar Bandaríkjamönnum
Zika vírusinn er mun skaðlegri en áður var talið og áhrif hans í Bandaríkjunum gætu orðið mun meiri en áður hafði verið talið. Þetta kemur fram í nýrri yfirlýsingu frá sóttvarnarlækni Bandaríkjanna. Áður var talið að sjúkdómurinn orsaki aðallega eina tegund fæðingargalla, svokallað dverghöfuð.