Erlent

Íslendingur í Nice: „Þetta er allt mjög óraunverulegt“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Vettvangurinn daginn eftir.
Vettvangurinn daginn eftir. vísir/epa
„Við erum á aðalgötunni hérna á hóteli. Það er færra fólk á ferðinni og margar búðir lokaðar en flestir frekar rólegir. Þetta er allt mjög óraunverulegt,“ segir Aníta Ýr Pétursdóttir í samtali við Vísi. Aníta er stödd úti í Nice ásamt kærasta sínum. 

Aníta Ýr Pétursdóttir
Í það minnsta 84 eru látnir eftir að trukkur ók hinn í mannhaf á aðalgötu borgarinnar. Fólkið var samankomið til að fagna þjóðhátíðardegi Frakka. Neyðarástand vegna hryðjuverkaógnar, sem staðið hefur yfir síðan í nóvember, hefur verið framlengt vegna atviksins og fólk í Nice er beðið um að halda sig innandyra. 

„Við vorum á flugeldasýningunni, svona um 200 metrum frá þeim stað þar sem bíllinn staðnæmdist, bara andartökum fyrr,“ segir Aníta. Þau hafi ákveðið að yfirgefa götuna um leið og flugeldasýningin hafi klárast til að sleppa við mestu örtröðina.

Þau voru nýkomin upp á hótel þegar þau sáu alla hlaupa sem fætur toguðu í átt frá bílnum. „Það hlupu allir í sömu átt nema einhverjir stukku í skjól í hliðargötum hér í kring. Það var mikil ringulreið, um leið og einn byrjar að hlaupa þá hlaupa allir,“ segir Aníta. 

Aníta og kærasti hennar eru búin að vera úti í Frakklandi í viku og fljúga heim á sunnudaginn. Þau ætla að reyna eins og unnt er að láta ferðina halda áfram eins og planað var. 

„Við fórum aðeins út á verslunargötuna áðan og hún var laus við lögreglu og hermenn. Það er mikil ró yfir borginni og mér sýnist sem flestir reyna að láta lífið ganga sinn vanagang og láta þetta ekki hafa of mikil áhrif á sig,“ segir Aníta að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×