Innlent

Katrín Jakobsdóttir: Getum og eigum að hjálpa fleirum en við gerum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Formaður Vinstri grænna ræddi málefni innflytjenda og flóttafólks í eldhúsdagsumræðum.
Formaður Vinstri grænna ræddi málefni innflytjenda og flóttafólks í eldhúsdagsumræðum. Fréttablaðið/GVA
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir mikilvægt að Íslendingar standi við bakið á flóttafólki og innflytjendum sem komi hingað til lands. Þeir geti og eigi að hjálpa fleirum en nú, enda séu Íslendingar í þeirri öfundsverðu stöðu að eiga margt að gefa.

„Við getum hjálpað fleirum en við gerum núna. Við eigum að hjálpa fleirum en við gerum núna. Sumir tala um það að innflytjendur ógni velferðarkerfinu okkar. Sú skoðun stangast beinlínis á við staðreyndir og byggist ekki á neinum raunverulegu gögnum. Það er ekki þannig að það búi hér svo margir að fleiri komist ekki fyrir,“ sagði Katrín í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld.

Katrín vísaði til þess að börn og fullorðnir séu myrt í stórum stíl annars staðar í heiminum. Um 65 milljónir manna séu á flótta og helmingur þeirra séu börn. „Þetta er flóttafólkið sem við erum að tala um. Fólkið sem flýr sprengjur og óhugnað og við getum sem betur fer fæst ímyndað okkur það. Fólkið sem einhverjir eru svo hræddir við að þeir tala um að loka landamærum og afnema mannúð. Mannúð og kærleika sem okkur finnst mörgum að eigi að vera kjarni okkar samfélags. Kjarni þess sem við erum,“ sagði hún.

Katrín fór um víðan völl í ræðu sinni, og ræddi meðal annars sitjandi ríkisstjórn og Panamaskjölin svonefndu. „Þetta er ríkisstjórn hinna týndu tækifæra. Þetta er líka ríkisstjórnin sem ætlaði sér að setja heimsmet. Fyrst sagðist hún ætla að setja heimsmet í skuldaleiðréttingu sem voru nú kannski frekar sýslumet en miðað við það sem var lofað fyrir kosningar en það sem situr eftir er að þessi ríkisstjórn á eitt heimsmet, eða líklega þó kannski Evrópumet sem er fjöldi ráðherra í Panamaskjölunum. Og það var réttlætt eftir á með því að einhvers staðar yrði ríka fólkið að geyma peningana sína. Þetta er fólkið sem ætlar að takast á við skattaskjólin.“

Hér má fylgjast með umræðunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×