„Við erum náttúrulega að halda upp á 25 ára afmæli Nínu, af því að hún hefur fylgt okkur öll þessi ár og er okkar einkennislag. Það kom mér allavega verulega á óvart hvað þetta lag hefur lifað góðu lífi og stimplað sig inn, ekki bara sem eitt vinsælasta íslenska Eurovision-lagið, heldur líka sem eitt vinsælasta dægurlag fyrr og síðar á Íslandi,“ segir Eyfi glaður í bragði og bætir við að fjólubláu og myntugrænu jakkafötin verði til staðar, en þau voru hönnuð af versluninni Gallerí 17 á sínum tíma, og hafði Svava Johansen, eigandi NTC, sem yfirumsjón með því.

„Þegar ég hugsa til baka koma ekkert annað en frábærar minningar upp í hugann, við vorum mjög sáttir við lagið og ekki síður hópinn sem við tókum með okkur,“ segir Eyfi og bætir við að því miður muni hópurinn ekki vera með á tónleikunum í kvöld, en hann er viss um að þau verða með þeim í anda.
Það er óhætt að segja að hver og einn einasti Íslendingur hafi heyrt og sönglað með laginu Draumur um Nínu, enda hefur líklega ekki verið haldin veisla eða óskalagatími í útvarpi án þess að eitt alvinsælasta dægurlag landsins sé sett á fóninn.
„Vinsældir lagsins hafa ekki síst komið okkur á óvart, þar sem textinn er frekar dapurlegur. Texti lagsins fjallar um söknuð manns sem hefur misst unnustu sína, þannig það er ekki hægt að segja að það sé mikið stuð í því, en ég held að lagið og samsöngur okkar Stefáns sé nú aðalmálið þegar kemur að velgengni og vinsældum lagsins, þetta er kraftmikið og grípandi og menn syngja hástöfum með við hvert tækifæri.“
„Við ætlum svo í framhaldi að fara í smá víking og heimsækja nokkra staði úti á landi. Vestmannaeyjar, Akureyri, Ísafjörður, Egilsstaðir, Norðfjörður og fleiri staðir eru komnir á kortið og svo ætlum við pottþétt á Borgarfjörð eystri, en þar hefur Stefán aldrei troðið upp, enda aldrei komið þangað, hann er virkilega spenntur fyrir því,“ segir Eyfi.