Lífið

Alda Dís heldur í tónleikaferð um landið

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Alda Dís ásamt þeim Guðmundi Reyni og Aroni.
Alda Dís ásamt þeim Guðmundi Reyni og Aroni. vísir/vilhelm
„Að taka þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins var virkilega skemmtilegt og krefjandi verkefni, ég gerði mér enga grein fyrir því hversu mikil vinna fer í það að búa til 3 mínútna atriði í kringum eitt lag, ég varð hálf heltekin af verkefninu og hugsaði um lítið annað. Ferlið var líka ótrúlega skemmtilegt og lærdómsríkt, ég kynntist alveg helling af frábæru fólki sem kemur að keppninni,“ segir Alda Dís Arnardóttir, 22 ára söngkona úr Snæfellsbæ, en hún hafnaði í öðru sæti í úrslitum Söngvakeppni sjónvarpsins.

Mikil vinna er lögð í atriðin sem fram koma í söngvakeppni sjónvarpsins, og þarf hver og einn keppandi að leggja fram mikla vinnu til að atriðin verði sem flottust. Alda Dís þótti vera mjög líkleg til sigurs í keppninni í ár, en laut þó í lægra haldi fyrir atriði Gretu Salóme sem stígur á svið í Stokkhólmi 10. maí næstkomandi.

„Hefði ég unnið söngvakeppni sjónvarpsins væri ég stödd í Stokkhólmi núna að fara á stíga á svið eftir nokkra daga, það er auðvitað frekar skrítið að hugsa til þess. Fyrstu klukkutímana eftir að úrslitin voru kynnt var ég með kökkinn í hálsinum en það leið auðvitað hjá. Ég lærði mjög mikið, sem ég kem til með að nýta mér næst þegar ég tek þátt,“ segir Alda Dís. Hún situr þó ekki heima aðgerðalaus, en hún skellti sér í hringferð um landið sem hófst með tónleikum á Höfn í Hornafirði síðastliðinn föstudag.

„Ég verð á ferð og flugi um landið næstu vikurnar ásamt þeim Guðmundi Reyni Gunnarssyni og Aroni Steinþórssyni. Guðmundur, eða Mummi eins og hann er oftast kallaður, er píanóleikari og tók þátt í Ísland Got Talent í ár. Hann komst í undanúrslitin þar sem hann stóð sig einstaklega vel. Mummi gaf út sína fyrstu sólóplötu, Various Times in Johnny’s Life, árið 2010. Aron er söngvari og gítarleikari í hljómsveitinni Puffin Island. Hljómsveitin, sem er indí/rokkhljómsveit, var stofnuð 2015 og og hefur sent frá sér lög sem hafa náð góðum vinsældum en fyrsta plata hljómsveitarinnar mun koma út í sumar

„Þetta er frábært ævintýri og ég er alveg virkilega spennt, þar sem ég hef aldrei farið hringinn sjálf,“ segir Alda Dís, en hópurinn mun koma fram á fimmtán stöðum víðsvegar um landið.

Framundan er nóg um að vera hjá Öldu Dís en ásamt því að hafa gefið út nýtt lag í vikunni, er hún farin að semja tónlist með enskum textum.

„Nýjasta lagið mitt, Skilið við allt, kom út í vikunni. Það er frekar ólíkt öðrum lögum mínum og það er smá sumar í því. Svo reikna klárlega með að horfa á Eurovision og styðja við bakið á Gretu Salóme, hún hefur staðið sig ótrúlega vel og er fagmaður fram í fingur góma. Það er enginn vafi á því að hún verður landi og þjóð til sóma þegar hún stígur á sviðið í Stokkhólmi,“ segir Alda Dís glöð og bjartsýn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×