Greta Salóme flytur lagið Hear Them Calling sem framlag okkar Íslendinga í Eurovision þetta árið.
Greta Salóme og Eurovision-teymi okkar Íslendinga hefur verið í Svíþjóð undanfarna daga og hefur verið mikið að gera hjá liðinu en í gær fór fram svokölluð opnunarhátíð fyrir keppnina.
„Fólk er að taka rosalega vel í mig og það er alveg magnað að labba hérna niður og það eru allir að taka vel í boðskap lagsins,“ sagði Greta á rauða dreglinum í Stokkhólmi í gær.
„Núna þegar sviðsgrafíkin og allt er komið saman þá er eins og allt sé að smella. Ég held að það sé ekki annað hægt en að líða eins rokkstjörnu hér á rauða dreglinum. Það er svo mikið af flottu fólki hérna og rosalega góð orka.“
Greta stígur á svið í Globen annað kvöld og er hún 16. í röðinni.
Einnig var rætt við nokkrar erlendar stjörnur á rauða dreglinum í gær og má sjá viðtal við þær hér að neðan.