Lífið

Ætla að setja heimsmet í rathlaupi

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Föst rathlaupabraut við Gufunes í Grafarvogi verður opnuð formlega á miðvikudagsmorgun klukkan níu. Þetta er önnur brautin af tveimur sem Reykjavíkurborg hefur sett upp í samstarfi við rathlaupafélagið Heklu. Þann dag er Alþjóðlegi rathlaupadagurinn og verður hann sérstakur hér á landi þar sem Rathlaupafélagið Hekla hyggst reyna að slá heimsmet í fjölda ungmenna sem hlaupa rathlaup á sama degi.

„Stefnt er að því að ná 250.000 ungum þáttakendum, en fyrra metið er frá 2003 þegar um 208.000 ungmenni settu Guinnes heimsmet í kringum heimsmeistarakeppnina í rathlaupi í Sviss,“ segir í tilkynningu frá rathlaupafélaginu.

Nemendur úr Húsaskóla og Dalaskóla munu fara brautina í Grafarvogi. Þá verður nemendum í grunnskólum í kringum Laugardalinn boðið að taka þátt í rathlaupi þennan dag í Laugardalnum. Almenningi verður einnig gefinn kostur á að prófa rathlaup í Laugardalnum á milli fjögur og sex við Grasagarðinn.

Íbúar og gestir á Austurlandi taka einnig þátt í að reyna við heimsmetið en hlaupið verður í Selskógi á Fljótsdalshéraði. Skólahópar geta tekið þátt í rathlaupi á milli níu og þrjú og opið verður fyrir almenning frá fjögur og sex. 

Þórgnýr Thoroddsen, formaður íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar, mun formlega opna brautina við Gufunesbæ í Grafarvogi með því að hlaupa einn hring á Alþjóðlega rathlaupadeginum. Hér og hér má nálgast nánari upplýsingar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×