Innlent

Ónafngreindur segist hafa ekið á Geirfinn og komið líkinu fyrir í gjótu

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn segist hafa komið líkinu fyrir í gjótu í hrauninu undir Helgafelli. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Maðurinn segist hafa komið líkinu fyrir í gjótu í hrauninu undir Helgafelli. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Ónafngreindur maður segir að Geirfinnur Einarsson hafi látið lífið í þegar ekið var á hann í umferðarslysi á Keflavíkurvegi, ekki langt frá Straumsvík.

Frá þessu segir í nýrri bók Ómars Ragnarssonar um málið sem ber nafnið Hyldýpið. Ómar segist hafa skrifað bókina upp úr aldamótum og tekið þá viðtöl við karl og konu sem bæði tengdust hvarfinu.

RÚV greindi frá þessu fyrr í kvöld en í bókinni kemur fram að maðurinn hafi viðurkennt fyrir Ómari að hafa ekið bíl sínum á Geirfinn og síðar komið líkinu fyrir í gjótu í hrauninu undir Helgafelli. Tveir menn hafi orðið vitni af slysinu en ekki ætlað sér að tilkynna lögreglu um það.

Í frétt RÚV er haft eftir Ómari að maðurinn sem á að hafa banað Geirfinni sé enn á lífi en að konan sé látin. Ómar segist hafa heitið tvímenningunum nafnleynd á sínum tíma, en hann ræddi síðast við þau fyrir tólf árum síðan.

Björn L. Bergsson, formaður endurupptökunefndar, segir í samtali við RÚV að hann geti ekkert sagt um það hver viðbrögð nefndarinnar verði, þar sem nefndarmenn hafi ekki séð bók Ómars. Þó gerir hann ráð fyrir að nefndin kynni sér efni bókarinnar.

Davíð Þór Björgvinsson, settur ríkissaksóknari í málinu, segist munu rannsaka þennan þátt málsins óski endurupptökunefnd eftir því. Hann hafði þó sjálfur ekki séð bók Ómars.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×