Erlent

Tuttugu fórust í flóðum í Makedóníu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Mikil rigning skall á Skopje.
Mikil rigning skall á Skopje. Nordicphotos/AFP
Að minnsta kosti tuttugu fórust í miklum flóðum sem skullu á Skopje, höfuðborg Makedóníu, aðfararnótt gærdagsins. Gríðarleg rigning var í borginni og olli hún flóðunum.

Lík hinna látnu fundust í gærmorgun þegar stormurinn hafði gengið yfir en nokkurra er enn saknað. Sumir drukknuðu inni í bifreiðum sínum en þegar flóð skall á hringvegi borgarinnar skoluðust bílar af veginum.

Alls féllu 93 millimetrar regnvatns sem er meira en féll allan ágústmánuð í fyrra. Sums staðar í borginni náði vatnið allt að 150 sentímetra dýpi.

„Það var allt í rugli. Sjónvörp, ísskápar, sófar. Allt var á floti. Þetta var algjör martröð,“ sagði Baze Spriovski, íbúi Skopje, við fréttastofu BBC.

Mörg heimila eru enn rafmagnslaus og þá greinir BBC frá því að mörg hús hafi hrunið.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×