Erlent

Bann gegn betli á teikni­borði Svía

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
„Það er ekki hægt að banna fólki í neyð að biðja um aðstoð,“ segir þingkonan Anna Starbrink.
„Það er ekki hægt að banna fólki í neyð að biðja um aðstoð,“ segir þingkonan Anna Starbrink. Getty/Mike Kemp

Stjórnvöld í Svíþjóð sæta nú harðri gagnrýni vegna hugmynda um að banna betl á götum landsins. Þau hafa fyrirskipað athugun á fýsileika slíks banns en niðurstöður eiga að liggja fyrir eftir níu mánuði.

Linda Lindberg, þingflokksformaður Svíþjóðardemókrata, sagði á blaðamannafundi á mánudaginn að fólk frá öðrum aðildarríkjum Evrópusambandsins væru að ferðast til Svíþjóðar til að betla fyrir utan verslanir.

Svíþjóð gæti ekki verið „samviska Evrópu“ hvað þetta varðaði.

Ekki er einhugur um hugmyndirnar innan minnihlutastjórnar Ulf Kristersson en þær hafa verið á teikniborðinu frá því að stjórnin tók við völdum fyrir tveimur árum, með stuðningi Svíþjóðardemókrata.

Ýmis samtök hafa mótmælt hugmyndunum og Fanny Siltberg, talskona kristilegu samtakanna Stockholms Stadsmission, segir bann aðeins munu færa vandann til. Um sé að ræða misheppnaða tilraun til að gera fátækt útlæga.

Þvert á móti þyrfti að hjálpa umræddum hópi, bæði í Svíþjóð og í Evrópu, með auknum aðgerðum gegn fátækt og mismunun.

Þá segir Aida Samani hjá samtökunum Civil Rights Defenders bann gegn betli líklega ganga gegn Mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefur verið leiddur í lög í Svíþjóð.

Anna Starbrink, þingkona Frjálslyndra, er meðal þeirra stjórnarþingmanna sem mun ekki greiða atkvæði með banninu. 

„Það er ekki hægt að banna fólki í neyð að biðja um aðstoð,“ sagði hún á Facebook.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×