Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - FH 20-19 | Naumur sigur ÍBV

Guðmundur Tómas Sigfússon í Íþróttahöllinni í Vestmannaeyjum skrifar
Theodór Sigurbjörnsson er markahæsti leikmaður ÍBV í vetur.
Theodór Sigurbjörnsson er markahæsti leikmaður ÍBV í vetur. vísir/vilhelm
Eyjamenn unnu eins marks sigur í hásepnnuleik á móti FH-ingum úti í Eyjum. Eyjamenn komust yfir á síðustu mínútunni en umdeildur dómur gerði úti um vonir FH-inga til þess að jafna.

ÍBV féll úr leik í bikarnum gegn Valsmönnum í síðasta leik og voru í raun í sárum eftir það en liðið ætlaði sér klárlega í undanúrslit þeirrar keppni.

Mikið jafnræði var á með liðunum í upphafi en gríðarlega lítið var skorað. Markverðir liðanna voru í geðveiku stuði og var til að mynda enginn af fjórum markvörðum leiksins með undir 50% markvörslu.

Eyjamenn komust þremur mörkum yfir um miðjan síðari hálfleik en FH-ingar jöfnuðu skömmu síðar. Líkt og markverðir liðanna voru góðir voru varnarnir einnig góðar og staðan var jöfn þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Einungis átján mörk voru skoruð í fyrri hálfleik en þó virtust Eyjamenn vera í mun meiri vandræðum sóknarlega, tapaðir boltar þeirra í fyrri hálfleiknum voru í raun ótrúlega margir.

Liðin virtust ekki ætla að raða inn mörkunum í síðari hálfleik en FH-ingar komust fljótlega fjórum mörkum yfir. Þeir voru með fjögurra marka forystu þegar innan við tuttugu mínútur voru eftir.

Þá kom algjörlega glataður kafli hjá FH-ingum og ÍBV sneri leiknum sér í vil. Þeir skoruðu sex mörk gegn engu en á þessum tíma tók Magnús Stefánsson sóknarleik Eyjamanna í sínar hendur og setti upp í nokkur góð kerfi.

Sóknarleikur FH-inga var grátlegur en Kolbeinn Aron Arnarson kom inn í mark ÍBV og gjörsamlega lokaði fyrstu mínúturnar. Það var síðan Einar Rafn Eiðsson sem bombaði boltanum í netið hjá Kolbeini og kom FH-ingum á bragðið aftur.

Gestirnir skoruðu reyndar næstu þrjú mörk leiksins og voru því komnir yfir á ný. Nokkrir glórulausir dómar gerðu það að verkum að ÍBV fékk loks vítakast og þar jafnaði Kári Kristján Kristjánsson metin af vítalínunni.

Elliði Snær Viðarsson skoraði síðan sigurmark ÍBV þegar tæp mínútna var eftir úr hraðaupphlaupi. Frábærlega gert hjá Elliða sem hefði líklega fengið vítið ef skotið hefði klikkað.

Í næstu sókn fékk Einar Rafn dæmdan á sig ruðning en réttast hefði líklega verið að gefa fríkast eða jafnvel vítakast á leikmenn ÍBV sem virtust vera inni í teig.

Þetta var ekki fyrsti umdeildi dómur leiksins en mennirnir með flautuna hafa vonandi átt betri daga.

ÍBV spilaði út tímann og tókst að sigra leikinn með eins marks mun. Þvílíkur léttir fyrir ÍBV sem var aðeins með einn sigur í síðustu sex deildarleikjum.

Eins og áður segir voru markverðir liðanna gjörsamlega geggjaðir. Stephen Nielsen var með 50% markvörslu í marki ÍBV en hann varði sextán skot, Kolbeinn kom inn á eftir honum og varði fimm af þeim átta skotum sem hann fékk á sig sem gera 63%.

Hjá FH-ingum voru markverðirnir ekki verri, Ágúst Elí lék allan leikinn að undanskildum þremur vítaköstum en hann varði 23 skot í markinu, það skilar 55% vörslu.

Brynjar Darri Baldursson fékk að spreyta sig í þremur vítaköstum og varði tvö þeirra en það skilar 67% vörslu.

FH-ingar þurfa heldur betur að fara að horfa niður fyrir sig í töflunni en þeir eru einungis nokkrum stigum frá fallsætunum.

Halldór: Fáránlegur dómur í lokin

„Ég er gríðarlega ósáttur með að tapa. Ég hefði þegið þetta eina stig sem var raun og veru í boði,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH-inga, eftir grátlegt tap í Eyjum.

„Það er klárt að þetta eru dómaramistök í lokin, það er klárt. Það er mjög biturt fyrir okkur, virkilega biturt en við erum með fjögurra marka forskot í seinni hálfleik sem við glutrum allt of auðveldlega frá okkur.“

„Miðað við þennan leik þá hefði verið sanngjarnt í lokin að þetta færi jafnt þó ég hefði þegið tvö stig.“

FH-ingar taka ömurlegan tíu mínútna kafla í leiknum þar sem þeir tapa 6-0, hvað gerist þar?

„Við erum virkilega óklókir, varnarleikurinn dettur yfir, Andri fór að hitta og smurði hann þrisvar í skeytin af tíu metrum. Við erum að slútta illa frammi, klúðrum víti og dauðafærum. Við verðum að kíkja á það í rólegheitunum.“

„Þrátt fyrir þennan kafla, fannst mér alveg vera eining fyrir því að klára leikinn. Þetta var mjög biturt og ég er virkilega sár.“

„Þeir fengu líka mjög góða markvörslu á móti og við vorum að klikka mikið. Ég er mjög ánægður með varnarleikinn nánast allan tímann, bæði 3-2-1 vörnina og síðan 6-0 vörnina,“ sagði Halldór en markverðir hans vörðu samtals 25 skot í leiknum.

„Nei alls ekki, það voru atriði og atriði í leiknum sem menn voru ósáttir við, heilt yfir var það svona 50/50. Þessi dómur í lokin er alveg fáránlegur og þeir búnir að viðurkenna að það voru mistök,“ sagði Halldór en hann virtist eiga inni eitt eða tvö orð við dómarana þegar að leiknum lauk áðan.

Sigurður: Gott að sjá strákana gleðjast

„Þetta var gífurlegur léttir, þetta var þung vika hjá okkur. við vorum særðir eftir þetta Valsdæmi í bikarnum,“ sagði Sigurður Bragason, annar af þjálfurum ÍBV, eftir eins marks sigur á FH-ingum í kvöld.

„Við erum með stráka sem vilja vinna dollur og leggja sig alla 100 prósent í það. Þeir voru í sárum og þetta er mikill léttir fyrir okkur í kringum þá að sjá þá gleðjast inni í klefa.“

„Við vorum ráðþrota, við klikkuðum á dauðafærum og þetta virtist vera þeirra leikur. Þá koma tveir uppaldir Eyjamenn inn, Maggi tekur leikinn sóknarlega í sínar hendur og splundrar þeim trekk í trekk.“

„Kolli kemur inn fyrir Stephen, Kolli var frábær en það er erfitt fyrir hann að vera með svona góðan markmann með sér. Hann sýndi okkur það að hann er mikilvægur í þessu.“

„Vörnin var mjög góð á móti Val og var það núna. Við tökum það út að við séum komnir með fleiri varnarafbrigði heldur en þessa hefðbundnu 5-1 vörn.,“ sagði Sigurður um hvað liðið gæti tekið út úr leiknum.

„Við erum sterkir varnarlega og Sindri (Haraldsson) er að klára leiki, nýkominn úr löngum meiðslum. Varnarleikur er það sem ég tek út úr þessu en sóknarlega getum við bætt heilan helling og verðum að gera það.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×