Í tilkynningunni kom fram að núverandi tekjur félagsins dygðu ekki til þess að greiða af öllum lánum þess og ekki væri útlit fyrir að markaðsaðstæður myndu lagast á næstunni. Samkomulagið ætti að tryggja félaginu nægt laust fé út árið 2018.
Olíuþjónustuiðnaðurinn í Noregi og víðar hefur verið í djúpri kreppu frá því að olíuverð tók að falla sumarið 2014. Leggja hefur þurft fjölmörgum olíuþjónustuskipum. Í gær hafði tunna af Brent-hráolíu ekki verið ódýrari síðan árið 2004. Tunnan kostaði yfir 115 bandaríkjadali í júní 2014 en kostar nú undir 35 Bandaríkjadölum. Íslandsbanki lánaði fyrirtækinu 130 milljónir norskra króna í árslok 2013, sem voru þá jafnvirði um 2,5 milljarða íslenskra króna. Arion banki lánaði félaginu 300 milljónir norskra króna sumarið 2014 sem þá voru jafnvirði 5,5 milljarða íslenskra króna. Hlutabréf í Havila hafa lækkað um meira en 90 prósent frá því íslensku bankarnir lánaðu fyrirtækinu.

Samkomulag Havila við lánardrottna felur í sér að lengt verði í lánum og afborgunum þeirra seinkað þannig að fyrirtækið muni borga 2,2 milljarða íslenskra króna í afborganir lána í stað 7,8 milljarða íslenskra króna á árunum 2016-2018 miðað við núverandi gengi. Samkomulagið er þó háð samþykki eigenda skuldabréfa sem Havila hefur gefið út og að 200 milljónir norskra króna, jafnvirði tæplega 3 milljarða íslenskra króna, af nýju hlutafé verði settar í félagið.
Fyrrverandi stjórnarmaður í Fáfni eigandi Havila
Havila Shipping er að meirihluta í eigu Sævik-útgerðarfjölskyldunnar, sömu fjölskyldu og á meirihluta í Havyard, skipasmíðastöðinni sem byggt hefur skip íslenska félagsins Fáfnis Offshore og á hlut í Fáfni. Per Rolf Sævik, sem segja má að sé höfuð fjölskyldunnar, sat í stjórn Fáfnis þar til í nóvember á síðasta ári.