Handbolti

Kemur Anna Úrsúla Íslandsmeisturunum til bjargar?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir með Íslandsbikarinn.
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir með Íslandsbikarinn. Vísir/Valli
Íslandsmeistarar Gróttu í Olís-deild kvenna hafa tapað fimm af fyrstu sex leikjum sínum á tímabilinu og eru í næstneðsta sæti deildarinnar. Nú leita menn leiða á Seltjarnarnesinu til að koma liðinu aftur á rétt spor.

Gróttuliðið missti mikið fyrir tímabilið þar á meðal markvörðinn Írisi Björk Símonardóttur, leikstjórnandann Evu Björk Davíðsdóttur og besta varnarmann deildarinnar; Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur.

Grótta hefur nú leitað til Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur um að hún taki skóna af hillunni og spili með liðinu. Morgunblaðið segir frá því í dag að henni standi nú til boða að gerast spilandi aðstoðarþjálfari liðsins.

Varnarleikur Gróttu hefur gengið illa í fjarveru Önnu Úrsúlu en liðið hefur fengið á sig 26 mörk að meðaltali í leik í fyrstu sex leikjum sínum en fékk aðeins 18 mörk á sig að meðaltali í deildarkeppninni í fyrra.

Anna Úrsúla er að skoða sín mál samkvæmt fyrrnefndri frétt og gerir væntanlega upp hug sinn fyrir helgi. Grótta mætir Haukum á Ásvöllum á laugardaginn.

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir var algjör lykilmaður í Íslandsmeistaraliðum Gróttu undanfarin tvö tímabil en hún snéri þá til síns uppeldisfélags eftir sigursæl ár með Val á Hlíðarenda.

Íris Björk Símonardóttir hefur aðstoðað Kári Garðarsson eftir að aðstoðarmaður hans Karl Guðni Erlingsson var látinn fara 4. október síðastliðinn. Íris Björk hefur einnig komið að þjálfun markvarða liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×