Innlent

Ábendingar litlu skilað í rannsókn Móabarðsmálsins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Á einni viku var tvisvar ráðist inn á heimili sömu konunnar í Móabarði og hún beitt alvarlegu kynferðislegu ofbeldi.
Á einni viku var tvisvar ráðist inn á heimili sömu konunnar í Móabarði og hún beitt alvarlegu kynferðislegu ofbeldi. vísir/vilhelm
Lögreglan á höfuðborgasvæðinu hefur fengið töluvert af ábendingum í rannsókn sinni á tveimur alvarlegum árásum, sem beinast gegn konu í húsi í Móabarði í Hafnarfirði. Þær hafa þó ekki komið að gagni við rannsókn málsins.

Rannsókn málsins er enn í fullum gangi og er í forgangi hjá lögreglunni sem lítur málið alvarlegum augum. Lögreglan hefur hefur fáar vísbendingar að styðjast við og hefur óskað eftir því að þeir sem geti upplýst um málið, það er árásarmanninn og ferðir hans, hafi samband við lögreglu.

Samkvæmt upplýsingum frá kynferðisbrotadeild sem fer með rannsókn málsins hefur lögreglan fengið talsvert af ábendingum sem unnið hafi verið úr, þær hafi hinsvegar litlu skilað hingað til.

Enginn liggur undir grun

Rannsókn lögreglu beinist að tveimur árásum. Fyrri árásin átti sér stað mánudagsmorguninn 15. febrúar um kl. 8, en í kjölfarið sendi lögreglan út svohljóðandi lýsingu á gerandanum:

Fölleitur maður um 180 sentimetrar á hæð, dökkklæddur og með svarta húfu og svarta hanska. Talinn vera á aldrinum 35 – 45 ára.

Seinni árásin átti sér stað sunnudagskvöldið 21. febrúar um kl. 20. Í bæði skiptin, með hjálp fjölmiðla og samfélagsmiðla, var óskað eftir upplýsingum um mannaferðir og/eða annað sem gæti varpað ljósi á málið.

Enn sem komið er liggur enginn undir grun og hefur konunni, sem fyrir árásunum varð, og fjölskyldu hennar verið komið fyrir á öruggum stað.


Tengdar fréttir

Óttaslegnir íbúar vígbúast í Móabarði

Óhugur er í íbúum Móabarðs eftir alvarlegar árásir í götunni. Menn hafa gripið til varúðarráðstafana og eru undrandi yfir að lögregla yfirheyri þá ekki þar sem þeir hljóti að liggja undir grun. Engar nýjar vísbendingar, segir lög

Konan nýtur nú verndar

Grunur leikur á að sami maður hafi í tvígang ráðist á konu á heimili hennar í Móabarði í Hafnarfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×