Lífið

Biluð textavél á RÚV: „Það er svo gaman að leika og við erum svo glöð“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Rangur texti birtist í tíufréttum Sjónvarps í kvöld.
Rangur texti birtist í tíufréttum Sjónvarps í kvöld. vísir/skjáskot/rúv
Skondið atvik átti sér stað í tíufréttum Sjónvarps í kvöld þegar rangur texti birtist við frétt um Framsóknarflokkinn. Flokkurinn hefur verið í eldlínunni að undanförnu þar sem helst er umdeilt hver eigi að gegna formennsku í flokknum. Vilja margir að Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður flokksins, taki við formennsku, en aðrir segja formanninn, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, enn eiga drjúgan stuðning innan flokksins.

Þá hefur mikið verið rætt um mögulegan ágreining á milli Sigmundar Davíðs og Sigurðar Inga og þegar Sigmundur var spurður út í ósættið birtist á skjánum:

„Ég kom hingað með mömmu og systkinum mínum til að leika.“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra var jafnframt til viðtals í fréttatímanum og þegar hún var spurð út í mögulega framtíðarforystu birtist textinn: „Það er svo gaman að leika og við erum svo glöð.“

Þess má geta að Sigmundur Davíð sagðist í fréttatímanum ekki kannast við ósætti á milli sín og Sigurðar Inga, og Lilja Dögg sagðist vera að íhuga að gefa kost á sér sem varaformaður Framsóknarflokksins.

Umrædd textabrot áttu þó að birtast við frétt um öllu alvarlegri mál, eða borgarastyrjöldina sem geisað hefur í Sýrlandi síðustu ár.

Framsóknarmenn sakað fréttastofu RÚV um að vera í herferð gegn flokknum og fóru ummæli Arnars Páls Haukssonar, þegar hann kallaði Sigurð Inga Jóhannsson „þennan feita“, illa ofan í flokksmenn og reyndar fleiri. Mistökin í kvöld munu því mögulega vera olía á eld þeirra Framsóknarmanna sem telja RÚV óvinveitt flokknum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×