Viðskipti innlent

Gaman að læra alltaf í starfinu

Sæunn Gísladóttir skrifar
Anna Lára Sigurðardóttir hefur starfað hjá Creditinfo í átta ár en var áður hjá Nova og Motus.
Anna Lára Sigurðardóttir hefur starfað hjá Creditinfo í átta ár en var áður hjá Nova og Motus. Vísir/GVA
„Það eru miklar breytingar í gangi og mjög mikið af spennandi verkefnum. Það er alltaf jafn gaman og alltaf ný verkefni og tækifæri hjá Creditinfo.“ Þetta segir Anna Lára Sigurðardóttir. Hún var á dögunum ráðin forstöðumaður fjármála- og rekstrarsviðs fyrirtækisins.

Creditinfo er leiðandi fyrirtæki í miðlun fjárhags- og viðskiptaupplýsinga auk þess að bjóða upp á fjölbreytta fjölmiðlaþjónustu.

Anna hóf störf hjá fyrirtækinu árið 2008, þá sem þjón­ust­u­stjóri. „Ég er að halda áfram að byggja upp þetta fjármála- og rekstrarsvið fyrirtækisins. Undir þetta svið falla ýmis verkefni, til að mynda erum við með bókhald og allan rekstur innan fyrirtækisins, og jafnframt sjáum við um starfsmannahald og innkaup,“ segir Anna.

Hún er einnig að vinna í því að taka innri ferlana í gegn innan fyrir­tækisins. „Við erum með LEAN-hugmyndafræðina að leiðar­ljósi þar og sú vinna snýr líka að rekstrinum,“ segir Anna.

Anna er með B.Sc.-gráðu í viðskipta­fræði frá Há­skól­an­um á Bif­röst. Áður starfaði hún sem hóp­stjóri hjá fjar­skipta­fé­lag­inu Nova og sem ráðgjafi hjá Mot­us.

„Ég hef yfirleitt verið í störfum sem snúa meira að sölu og þjónustu, en nú er ég komin hinum megin við borðið,“ segir Anna.

Þrátt fyrir að hafa verið átta ár hjá fyrirtækinu segist Anna alltaf vera að læra og takast á við ný verkefni. „Það skiptir rosalega miklu máli í svona starfi að hafa gaman af því sem maður er að gera. Stór partur af því er að læra af nýjum verkefnum sem ég er að vinna daglega,“ segir Anna. „Svo vinn ég með frábæru samstarfsfólki."

Anna er í sambúð með Árna Henry Gunnarssyni og eiga þau tvö börn. „Mikill tími utan vinnunnar fer í fjölskyldu og vini, en svo hef ég mjög gaman af því að fara upp á fjöll á skíði. Ég hef alla tíð verið mikið í Bláfjöllum, en hef ferðast víða erlendis til að skíða líka. Nú er ég að koma krökkunum upp á það líka,“ segir Anna.

„Utan þess förum við mikið með krakkana í ferðalög og stundum útivist saman, það er mikið í huga okkar,“ segir Anna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×