Innlent

Ólafur var með erlenda gesti í útsýnisflugi

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá vettvangi slyssins í gær.
Frá vettvangi slyssins í gær. Vísir/Jói K.
„Fyrir hönd okkar vil ég þakka öllum hlutaðeigandi, þar með talið björgunarfólki og starfsfólki Landspítalans, fyrir skjót viðbrögð og faglega ummönnun,“ segir Ólafur Ólafsson, eigandi Samskipa, í stuttri tilkynningu til fjölmiðla. Ólafur var ásamt fjórum öðrum um borð í þyrlu sem brotlenti skammt frá Nesjavöllum í gærkvöldi.

Þyrlan er í eigu Ólafs og nýkomin frá Sviss. Sjálfur er Ólafur áhugamaður um þyrluflug og með þyrlupróf en hann var ekki við stjórn þyrlunnar í gær.

Í tilkynningunni segir Ólafur að um borð hafi einnig verið þrír viðskiptafélagar hans frá Norðurlöndunum og íslenskur flugmaður.

„Um var að ræða útsýnisflug með erlendu gestina og ætlunin var að lenda aftur í Reykjavík,“ segir Ólafur.

Hann segir alla hafa sloppið tiltölulega vel frá slysinu, miðað við aðstæður. Líkt og greint var frá í gær voru þrír þeirra sem um borð voru lagðir inn á Landspítalann með beinbrot. Fréttastofu er ekki kunnugt um hvort Ólafur hafi verið einn þeirra.

Tildrög slyssins eru ókunn en Rannsóknarnefnd samgönguslysa og lögregla fara með rannsókn málsins.


Tengdar fréttir

Þrír með beinbrot og tveir undir eftirliti

Þrír þeirra sem um borð voru í þyrlunni sem brotlenti skammt frá Nesjavallavirkjun hafa verið lagðir inn á Landspítalann með beinbrot og önnur meiðsli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×